Dalabyggð greiðir aðgang elli- og örorkulífeyrisþega að líkamsræktinni

DalabyggðFréttir

Á sveitarstjórnarfundi þann 18. janúar var samþykktur samningur við Ungmennafélagið Ólaf pá um afnot elli- og örorkulífeyrisþega af líkamsræktarstöð félagsins að Vesturbraut 8 í Búðardal.

Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir andlega og líkamlega heilsu og vellíðan. Rannsóknir sýna að reglubundin líkamsrækt við hæfi styður við aukna virkni og árangur í endurhæfingu. Þá er líkamsþjálfun fyrir eldra fólk gríðarlega mikilvæg og hefur aukist sl. ár, er samningur þessi liður í því að efla hana enn frekar hjá eldri íbúum Dalabyggðar.

Samningurinn var undirritaður í dag, miðvikudaginn 31. janúar, sem þýðir að nú hafa allir elli- og örorkulífeyrisþegar með lögheimili í sveitarfélaginu gjaldfrjálsan aðgang að líkamsræktarstöðinni. Í staðin greiðir Dalabyggð félaginu árlegan styrk að upphæð 250.000 kr.- en samningurinn gildir til þriggja ára.

Elli- og örorkulífeyrisþegar hafa sjálfir samband við forsvarsmenn ungmennafélagsins varðandi að fá afhentan lykil að líkamsræktinni gegn framvísun viðeigandi skírteinis/staðfestingar. Forsvarsmenn félagsins veita einnig nánari upplýsingar um notkun og umgengnisreglur.

Í líkamsræktinni er að finna ýmis tæki, má þar nefna sérstaklega Nustep þrekþjálfi, göngubretti, og þrekhjól sem hentar eldra fólki og fólki í endurhæfingu sérstaklega vel ásamt fjölda þyngdarlóða á breiðu bili, allt frá 0,5kg og upp úr.

 

Pálína Jóhannsdóttir hefur verið með leikfimi fyrir eldri borgara í nafni Íþróttafélagsins Undra í ræktinni á mánudögum kl. 11:30 – 12:30 og miðvikudögum kl. 11:00 – 12:00. Þeir tímar halda áfram á þessu nýja ári en greiða þarf sérstaklega fyrir þá tíma til Íþróttafélagsins Undra, þ.e. þeir tímar eru ekki partur af samningnum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei