Allir lesa

DalabyggðFréttir

Eftir fyrstu vikuna í landsleiknum Allir lesa hafa keppnislið skráð heilar 9.255 klukkustundir af lestri, eða sem samsvarar 385 sólarhringum.
Athyglisverð tölfræði hefur tekið að myndast og ljóst að metsölubækur síðustu jóla eru einnig þær mest lesnu. Á toppnum situr barnabókin Mamma klikk eftir Gunnar Helgason en fast á hæla hennar fylgja drottning og konungur glæpasagnanna, þau Yrsa og Arnaldur, og heldur slagur þeirra því áfram þrátt fyrir að jólabókaflóðinu sé lokið.
Þá eru konur um 73% lesenda en nóg er eftir af keppninni vilji karlar landsins girða sig í brók og reynast konunum verðugir andstæðingar.
Þegar lestur er skoðaður eftir búsetu má sjá að sveitarfélagið Ölfus og Blönduósbær hafa staðið upp í hárinu á sigurvegurum síðustu keppni, Vestmannaeyingum. Eyjamenn sitja nú í öðru sæti á eftir sveitarfélaginu Ölfus en þar hafa bæjarbúar lesið að meðaltali 4,4 klukkustundir.
Dalabyggð stendur sig vel og situr í 6. sæti en getur enn náð toppsætinu með sameiginlegu átaki. Enn er hægt að skrá sig, stofna lið og lesa til sigurs inn á allirlesa.is.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei