Árni Magnússon 1663-1730

DalabyggðFréttir

Í dag, 13. nóvember, eru 350 ár liðin frá fæðingu Dalamannsins Árna Magnússonar handritasafnara.
Árni Magnússon var fæddur á Kvennabrekku 13. nóvember 1663. Foreldrar hans voru sr. Magnús Jónsson og Guðrún Ketilsdóttir. Ungur var hann sendur í fóstur til móðurforeldra sinna, Ketils Jörundssonar prófasts og Guðlaugar Pálsdóttur í Hvammi.
Fyrstu menntun sína hlaut Árni hjá Katli afa sínum, sem var einn lærðasti maður landsins. Eftir andlát sr. Ketils 1670 tók Páll Ketilsson móðurbróðir hans við uppfræðslunni. Sagan segir að Árni hafi fyrst lært að lesa íslensku af bók 6 vetra gamall. Veturinn eftir lærði hann latínu og 10 vetra gamall var hann farinn að læra grísku og undirstöðuaðferðir reikningslistarinnar. Árið 1680 fóru Árni og Jón bróðir hans saman í Skálholtsskóla. Árni var útskrifaður úr Skálholtsskóla 1683 og innritaðist í Hafnarháskóla sama ár sem Arnas Magnæus.
Árni stóð alla tíð í góðu bréfasambandi við fjölskyldu sína og vorið 1685 kemur Árni heim í Hvamm og dvelur þar fram á haustið 1686. Var hann þá við handritaleit á vegum húsbónda síns, Thomasar Bartholín fornfræðings Danakonungs.
Í Skálholti var hann 1702-1712, en vann jafnframt að jarðabókinni og öðru fyrir konung víða um land. Hann fór þá eins oft og hann gat heim í Hvamm og sat þar löngum við bréfaskriftir. Þá var Magnús bróðir hans orðinn prestur í Hvammi. Kona hans var Sigríður Jónsdóttir, systir Páls Vídalíns lögmanns, nánasta samtstarfsmanns Árna.
Í Dalasýslu náði Árni líka mörgum af sínum allra merkustu handritum, svo sem Staðarhólsbók Grágásar (AM 334 fol.), Staðarfellsbók (AM 346 fol.) og Belgsdalsbók (AM). Þó voru ekki allar skinnbækur falar, svo sem Skarðsbók postulasagna (SÁM), sem hann þó fékk að láta skrifara sína afrita.
Árni Magnússon er einn merkasti maður sem Dalirnir hafa alið. Þáttur hans í sögu Íslands verður seint metin til fjárs. Handritasafn hans er verðmætasta eign Íslendinga og jarðabókin ekki síður einstök og ómetanleg heimild. Bæði handritasafnið og jarðabókin eru á skrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um minni heims. Við Árna eru tvær stofnanir kenndar, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík og Den Arnamagnæaske Samling í Kaupmannahöfn
Árnastofnun heldur upp á afmælíð með margvíslegum hætti á árinu. Verkefnið Handritin alla leið heim með sýningum á sex stöðum (þar á meðal hér í Dölum) á landinu hefur staðið yfir síðan í vor. Alþjóðleg ráðstefna um handrit í október. Fyrirlestraröðin Góssið hans Árna. Útgáfa bóka, skólaverkefni og fleira. Í dag er síðan hátíðardagskrá í Reykjavík, þar sem meðal gesta er Margrét Þórhildur Danadrottning. Þá er frumskjöl Jarðabókarinnar frá 1703 nú til sýnis í Þjóðskjalasafni Íslands.
Byggðasafn Dalamanna hefur frá í vor staðið fyrir fyrirlestrum og öðrum uppákomum tengdum Árna Magnússyni og handritunum. Hefur það veriðí samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Nýpurhyrnu og Héraðsskjalasafn Dalasýslu með styrk frá Menningarráði Vesturlands og fleiri aðilum.

350 ára afmæli Árna Magnússonar (1663-1730)

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei