Á 233. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 13. apríl sl. lagði Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri fram minnisblað varðandi niðurstöðu ársreiknings 2022 við seinni umræðu málsins. Í framhaldi af umræðum á þeim fundi var ársreikningur Dalabyggðar 2022 samþykktur samhljóða. Innihald minnisblaðsins má lesa hér fyrir neðan og einnig nálgast minnisblaðið sjálft með fundargerð 233. fundar sveitarstjórnar.
Kynnt á 233. fundi sveitarstjórnar við seinni umræðu 13. apríl 2023
Á 232. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar sem haldinn var þann 9. mars sl. var ársreikningur vegna ársins 2022 tekinn til fyrri umræðu og eftirfarandi bókað:
„Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.153,7 millj.kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 925,1 millj.kr.
Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningahlutfall fasteignaskatts nam 0,50% í A-flokk sem er lögbundið hámark, í B-flokki nam álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall. Í C-flokki nam álagningarhlutfallið 1,50% en lögbundið hámark þess er 1,32%. Sveitarstjórnir hafa heimild til að hækka álagningarhlutfall í A og C-flokki um allt að 25% umfram framangreind hámörk.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 13,0 millj.kr., en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 35,2 millj.kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 901,9 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 844,7 millj.kr.“
Ekki hafa neinar breytingar orðið á ársreikningnum á milli umræðna og er hann hér lagður fram til seinni umræðu og þar með staðfestingar sveitarstjórnar Dalabyggðar.
Það má segja að niðurstaða ársreiknings ársins 2022 sé mjög viðunandi hvað A hluta reikningsins varðar, tekjur eru umfram þá áætlun sem gerð var, raun niðurstaða er 925,1 millj.kr. á móti áætlun með viðaukum upp á 908,8 millj.kr. eða 1,9% yfir áætlun. Breyting rauntalna á milli áranna 2021 og 2022 er jákvæð um sem nemur 8,1% í A hluta.
Hvað samstæðuna varðar tekju megin, þ.e. A+B, þá er heildartekjur 1.153,7 árið 2022, áætlun með viðaukum hljóðaði upp á 1.178,4 eða 2,1% undir áætlun. Breyting á rauntölum á milli ára er jákvæð um sem nemur 8,1%.
Laun og launatengd gjöld í A hluta á árinu 2022 voru 473,5 millj.kr. á móti áætlun með viðaukum upp á 488,8 millj.kr. eða 3,1% undir áætlun. Breyting rauntalna á milli áranna 2021 og 2022 er til hækkunar sem nemur 6,7% í A hluta.
Laun samtals í A+B á árinu 2022 voru 638,0 millj.kr. á móti áætlun með viðaukum upp á 681,9 millj.kr. eða 6,9% undir áætlun. Breyting rauntalna á milli áranna 2021 og 2022 er til hækkunar sem nemur 8,3% í A+B hluta. Launahlutfall á árinu 2022 var 55,3%, var 55,2% árið 2021. Þess ber að geta að uppgjör við fyrrum sveitarstjóra er inn í launatölum ársins 2022.
Heildarfjöldi starfsmanna í árslok 2022 var 85 á móti 87 í árslok 2021. Fjöldi stöðugilda í árslok 2022 var 53 á móti 51 í árslok 2021. Ársverk á árinu 2022 voru 52 á móti 54 á árinu 2021.
Lífeyrisskuldbinding hækkaði verulega á milli ára, gert var ráð fyrir 7 millj.kr. hækkun en raunin varð 50 millj.kr. hefur það verulega áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins.
Annar rekstrarkostnaður í A+B var 413,8 millj.kr. á árinu 2022 á móti áætlun með viðaukum upp á 439,7 millj.kr. eða 5,9% undir áætlun. Breyting á rauntölum á milli ára er til hækkunar sem nemur 21,3%. Hlutfall annars rekstrarkostnaðar er 35,9% á árinu 2022 í samanburði við 31,9% á árinu 2021.
Afskriftir í A+B hlutum samtals á árinu 2022 voru 34,9 millj.kr. á móti 61,9 millj.kr. á árinu 2021.
Fjármagnsgjöld í A+B hlutum samtals á árinu 2022 voru 31,9 millj.kr. á móti 22,9 millj.kr. á árinu 2021.
Þannig að, eins og segir í bókun sveitarstjórnar frá fundi nr. 232, þá var rekstrarniðurstaða A og B hluta neikvæð um 13,0 millj.kr. á árinu 2022, en rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð um 35,2 millj.kr. samkvæmt rekstrarreikningi.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 901,9 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 844,7 millj.kr.
Skuldahlutfall A+B hluta var á árinu 62,3% og skuldaviðmið 25% sem er mjög lágt í öllum samanburði. Ljóst er að ef framkvæmdir við íþróttamannvirki fara af stað þá fer skuldahlutfall Dalabyggðar og skuldaviðmið upp en ekki á neinum tímapunkti upp fyrir gildandi hámark sem er 150%.
Miðað við núverandi stöðu á lánasafni Dalabyggðar þá eru afborganir vegna lánasafnsins, A+B hluti, svohljóðandi á næstu árum:
Af þessu má sjá að þungi afborgana vegna langtímaskulda breytist mjög frá og með áramótum 2024/2025 og gefur Dalabyggð aukið svigrúm til fjárfestinga þar með, sbr. áætlanir um uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Það má ljóst vera að daglegur rekstur A hluta samstæðu Dalabyggðar er á traustum grunni eins og hann er í dag. Aftur á móti er ljóst að það er umhugsunarefni hvað varðar ýmsa þætti B hlutans og má þar helst nefna rekstur Silfurtúns, Dalaveitna og félagslegs húsnæðis. Þessi þætti þarf að nálgast af festu þannig að ekki haldi áfram að safnast upp skuld þessara stofnana við A sjóð Dalabyggðar.
Í lokin er rétt að koma inn á að Dalabyggð er eitt af þeim sveitarfélögum sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur sent erindi sem lagt var fram á 232. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar. Efni þess snýr eingöngu að því að framlegðarhlutfall Dalabyggðar í áætlun ársins 2023, hvað A hluta varðar, er áætlað 9,8% en lágmarksviðmið nefndarinnar er 10,5%, allir aðrir mælikvarðar í rekstri og áætlunum Dalabyggðar standast lágmarksviðmið EFS.
Búðardal 13. apríl 2023
Björn Bjarki Þorsteinsson
sveitarstjóri
Ársreikninga Dalabyggðar má skoða hér: Ársreikningar