Átak í söfnun skjala íþróttafélaga

DalabyggðFréttir

Átak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi í söfnun skjala íþróttafélaga hófst formlega miðvikudaginn 18. apríl. Er það gert í tilefni af 100 ára afmæli ÍSÍ og þann dag voru 100 dagar í að Ólympíuleikarnir í London hefjist. Stefnt er að því að átakinu ljúki í janúar 2013 um leið og afmælisári ÍSÍ lýkur. Verður þá tekið saman yfirlit yfir þau skjalasöfn íþróttafélaga sem eru varðveitt á opinberum skjalasöfnum um landið.

Tilgangurinn með átakinu er að tryggja örugga varðveislu skjalasafna íþróttafélaga og að þau verði aðgengileg á héraðsskjalasöfnum. Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir um starfsemi þeirra. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og halda sögu félaganna til haga. Hvaða hugsjónir voru að baki stofnun og starfsemi þeirra, hvernig voru keppnisferðir fjármagnaðar, hverjir áttu metin fyrir hundrað árum síðan, hverjir voru í stjórnum, o.s.frv?
Með skjölum er átt við fundagerðabækur, sendibréf, tölvupóst, ljósmyndir, félagaskrár, mótaskrár, ársskýrslur, kynningarefni og annað það sem rekur sögu og starfsemi félaganna. Mörg skjalasöfn íþróttafélaga eru varðveitt við misjafnar aðstæður og oft á tíðum í heimahúsum stjórnarmanna, núverandi og fyrrverandi. Þegar skjölin eru komin á skjalasafn er hægt að hafa þau að hluta eða í heild aðgengileg og félögin geta fengið þau lánuð út, til dæmis fyrir sýningar. Flest íþróttafélög í héraðinu hafa skilað einhverju af skjölum, en hægt er að hafa samband við héraðsskjalavörð með fyrirspurnir þar að lútandi.
Þá er mikilvægt að gæta að daglegu skjalahaldi hjá íþróttafélögunum, m.a. með það í huga að skjalasöfnum nútímans er nokkur hætta búin vegna rafræna forms. Oft gleymist að koma gögnum á varðveitanlegt form með útprentun og hafa þannig oft glatast á skömmum tíma. Héraðsskjalavörður á Héraðsskjalasafni Dalasýslu er boðinn og búinn til að veita ráðgjöf og aðstoð til þeirra sem vilja koma sínum skjölum í gott horf og afhenda á safnið og varðveita þau þannig á aðgengilegan hátt í heimabyggð.
Stjórnum skráðra íþróttafélaga hjá ÍSÍ á starfsvæði Héraðsskjalasafni Dalasýslu hefur verið sent bréf til kynningar á verkefninu. Auk þess eru allir þeir sem hafa komið að starfsemi íþróttafélaga hér í Dölum hvattir til að koma skjölum íþróttafélaganna til stjórna þeirra eða Héraðsskjalasafns Dalasýslu. Helsta markmið með þessu átaki er að gögnin séu varðveitt á öruggum stað, skráð og aðgengileg til skoðunar.
Skráð íþróttafélög og héraðssambönd í Dalabyggð eru Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, Ungmennafélagið Æskan, Ungmennafélagið Ólafur pái, Ungmennafélagið Dögun, Ungmennafélagið Stjarnan, Hestamannafélagið Glaður og Glímufélag Dalamanna.
Íþróttafélög í Dalabyggð sem ekki eru lengur skráð hjá ÍSÍ eru Ungmennafélagið Þröstur á Skógarströnd, Sundfélag Hörðudals, Ungmennafélagið Unnur djúpúðga í Hvammssveit, Ungmennafélagið Von í Klofningi og Ungmennafélagið Tilraun/Vaka á Skarðsströnd.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei