Auðar- og helgiganga í minningu Auðar djúpúðgu

DalabyggðFréttir

Helgiganga í minningu Auðar djúpúðgu verður farin laugardaginn 22. júní í Dölum, þar sem hún nam land fyrir rúmum 1100 árum. Auður djúpúðga Ketilsdóttir var eina konan í hópi landnámsfólks sem fór fyrir eigin leiðangri til Íslands og ein fárra þeirra sem Landnámabók segir að hafi verið kristinnar trúar.
Gangan hefst með helgistund við Krosshólaborg í Dölum kl. 14. Göngufólki er ráðlagt að safnast þar saman og koma bílum sínum og farartækjum þar fyrir.
Landnáma segir að Auður hafi reist krossa við Krosshóla og haft þar bænarhald sitt. Sagt verður frá heilögum Kólumkilla sem telja má víst að hafi verið helsti dýrlingur kristinna landnámsmanna, sem komu hingað frá Bretlandseyjum. Gangan er farin um sólstöður, sem gegndu stóru hlutverki í siðvenjum og trú Kelta.
Frá Krosshólum verður gengið að Auðartóftum, þar sem verður stutt helgistund og þaðan svo gengið að Hvammskirkju, þar sem verður helgistund með kærleiksmáltíð. Þá verður boðið í kirkjukaffi og göngufólki síðan ekið aftur að Krosshólaborg.
Gert er ráð fyrir að dagskráin öll taki þrjá til fjóra tíma og við það miðað að gangan sé fjölskylduvæn, að ungir og aldnir (8-80 ára) geti tekið þátt í henni.
Sr. Anna Eiríksdóttir, sóknarprestur, og sr. Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar, munu stýra helgistundunum, en þar verða lesnir textar úr íslenskum fornbókmenntum og farið með forn keltneskt trúarefni.
Gangan er farin á vegum starfshóps Þjóðkirkjunnar um helgistaði á föruleiðum og menningar- og ferðamálanefndar Dalabyggðar.
Nánari upplýsingar veitir Jón Egill Jóhannsson, formaður sóknarnefndar í Hvammssókn, og Anna Eiríksdóttir sóknarprestur.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei