Á dögunum færði Akademía skynjunarinnar Dalabyggð að gjöf glæsilega bók um myndlistarsýninguna „Nr. 4 Umhverfing“ sem opin var á Vestfjörðum, Ströndum og Dölum sumarið 2022.
Það voru 126 listamenn sem settu upp bæði inni- og útiverk vítt og breitt um svæðið en sýningin var eins sú stærsta og víðfeðmasta sem haldin hefur verið á Íslandi. Með sýningunni gátu heimamenn og gestir ferðast um og upplifað myndlist, menningu og náttúru, allt á sama tíma.
Dalabyggð þakkar kærlega fyrir gott samstarf í tengslum við sýninguna og fyrir bókina sem mun eignast stað á Héraðsbókasafni Dalasýslu til að allir íbúar geti notið hennar.