Breytt fyrirkomulag þjónustu hjá skrifstofu Dalabyggðar

DalabyggðFréttir

Í ljósi þess að neyðarstigi hefur verið lýst yfir í landinu vegna COVID-19 veirunnar mun fyrirkomulag á þjónustu hjá skrifstofu Dalabyggðar breytast frá og með fimmtudeginum 19.mars

Aðgangur að vinnuaðstöðu starfsmanna á skrifstofu sveitarfélagsins verður lokaður og því verður ekki hægt að mæta beint á skrifstofur starfsmanna sveitarfélagsins. Eru gestir beðnir að virða tilmæli um að koma ekki inn á vinnuaðstöðu starfsmanna.

Opnunar- og símatími helst óbreyttur eða frá kl.9 til 13 alla virka daga.

Til að fá þjónustu eða hitta ákveðinn starfsmann er því óskað eftir að hringt sé á skrifstofu sveitarfélagsins í síma 430-4700 og látið vita af sér.
Afgreiðsla mála fer svo fram í fundarsal á 2. hæð í stjórnsýsluhúsinu þar sem gestir eru beðnir um að virða tilmæli um að halda 2 metra fjarlægð á milli manna og huga vel að handþvotti. Sótthreinsispritt er til staðar í húsinu.

Þetta fyrirkomulag gildir frá 19. mars á meðan neyðarstig og samkomubann er í gildi. Með þessu er ætlunin að tryggja svo sem kostur er starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins og fyrirbyggja mögulegar smitleiðir fyrir starfsfólk og almenning.

Hvatt er til að koma aðeins ef um brýn erindi er að ræða en að nýta símann og tölvupóst að öðru leyti. Netföng starfsmenna eru á heimasíðu Dalabyggðar og einnig má senda póst á netfangið dalir@dalir.is sem verður framsendur til þess aðila sem á að sinna erindinu.

Þetta fyrirkomulag verður metið reglulega og gerðar breytingar eftir því sem þörf verður á.

Frekari upplýsingar um þjónustu má nálgast hérna á heimasíðunni, í gegnum netfangið dalir@dalir.is eða í síma 430-4700

Kristján Sturluson
Sveitarstjóri Dalabyggðar

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei