Jörvagleði

Er haldin í sumarbyrjun annað hvort ár, á oddatölu.

Gleðin er kennd við bæinn Jörva í Haukadal í Dalasýslu. Á 17.-18.öld var mikið um veislur og almenna gleði á Jörva og er bærinn þekktur fyrir þær. Svokölluð Jörvagleði var haldin á krossmessu og var þá einskonar töðugjöld. Ástæða þess að gleðin var haldin á Jörva frekar en öðrum bæjum hefur eflaust verið sú að Jörvi hefur talist til betri bæja eins og segir í Árbók Ferðafélagsins frá 1947. „Á Jörva bjuggu jafnan efnamenn og hýstu stórmannlega.” Sótti þangað fjöldi fólks til skemmtanar. Þar var dansað, mikið um gleði og leiki.

Ekki er hægt að segja að yfirvaldið hafi verið ánægt með þessar skemmtanir enda voru sögur af lauslæti oft tengdar þeim. Þrátt fyrir að Björn Jónsson sýslumaður á Staðarfelli hafi bannað Jörvagleðina virðist hún hafa haldið áfram a.m.k. eru heimildir fyrir síðustu Jörvagleðinni árið 1708, þar áttu að hafa komið undir nítján börn.

Jörvagleði var svo endurvakin fyrir nokkrum árum og tengdu Dalamenn hana þá við vorið og sumarbyrjun. Dalamenn hampa þá menningu, tónlist og listum, stíga dans (þó ekki vikivaka eins og sögur fara af að hafi verið gert fyrr á öldum) og svífa þannig saman inn í sumarið.

 

Jörvagleði 2021 – dagskrá

Kl.11:00 Sumarhlaup UDN
Um viðburðinn: Ungmennasamband Dalamann og Norður Breiðfirðinga stendur fyrir skemmtilegu hlaupi til að hlaupa á móti sumrinu. Hlaupið er um 3km að lengd, hefst og endar að Hlíð í Hörðudal. Þátttakendur eru beðnir um að virða smitvarnir og 2ja metra eða viðhafa grímunotkun þar sem því verður ekki við komið.

Kl.14:00 „Afbragð annarra kvenna“ – Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur fjallar um Auði djúpúðgu á Teams
Um viðburðinn: ,,Þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“ Þannig farast sögumanni Laxdælu orð um ferð Auðar djúpúðgu frá Skotlandi til Íslands í lok níundu aldar. Vilborg segir í máli og myndum sögu Auðar, háskalegri ferðinni með sonarbörnin yfir hafið til landnáms í Dölum, og einnig frá Þorgerði og völvunni Gullbrá á Akri sem örnefni eru kennd við í Skeggjadal.
Slóð á erindið má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.

Bein slóð á Facebook-viðburð: „Afbragð annarra kvenna

Kl.16:00 Dalamaður ársins 2021
Um viðburðinn: Niðurstöður úr kosningu um Dalamann ársins 2021 tilkynntar í beinni útsendingu á Facebook-síðunni: „Sveitarfélagið Dalabyggð
Kosninguna má finna hérna á heimasíðu Dalabyggðar og Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.

Kl.17:00 Hittum handknattleiksmanninn Björgvin Pál Gústavsson á Teams
Um viðburðinn: Björgvin Páll handknattleiksmaður býður okkur í spjall um markmið og leiðina að góðum árangri í gegnum fjarskiptaforritið Teams. Björgvin verður með smá inngang og svo verður hægt að spyrja hann spurninga og spjalla á eftir. Björgvin Páll lék með íslenska landsliðinu þegar það vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Austurríki 2010. Björgvin þekkir vel hvað þarf til að ná góðum árangri. Viðburðurinn er jafnt fyrir unga sem eldri!
Slóð á erindið má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.

Kl.20:00 Spurningakeppni fjölskyldunnar – Lions með spurningakeppni á Teams.
Um viðburðinn: Lionsklúbbur Búðardals stendur fyrir fjörugri spurningakeppni fyrir alla fjölskylduna. Tilvalið að eiga notalegt kvöld saman.
Slóð á keppnina má finna á Facebook-viðburðinum „Jörvagleði 2021“.

Kl.22:00 Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Ósk
Um viðburðinn: Björgunarsveitin Ósk verður með flugeldasýningu til að lýsa upp tilveru Dalamanna og bjóða sumarið velkomið. Sýningunni verður skotið upp af gömlu bryggjunni.
Við beinum því til íbúa að safnast ekki saman í hópa, virða 2ja metra regluna eða viðhafa grímunotkun þar sem því verður ekki við komið.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei