Búðardalur – Augnablikin heima

DalabyggðFréttir

Búðardalur – Augnablikin heima er ljósmyndasýning Dagbjartar Drífu Thorlacius. Sýningin verður opnuð laugardaginn 20. apríl kl. 16 í Leifsbúð. Sýningin verður opin á Jörfagleði fimmtudag til sunnudags kl. 11-15 og mun síðan standa yfir í allt sumar.
Búðardalur – Augnablikin heima er hluti af lokaverkefni Dagbjartar Drífu Thorlacius í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Miðlunarverkefnið er sýning sem byggir á ljósmyndum af íbúum Búðardals. Myndirnar voru teknar á tímabilinu frá september 2012 fram í mars 2013. Þetta eru hversdagslegar stemningar um venjubundið líf fólks á heimilum sínum.
Heimurinn heima, er sá heimur sem mótar umgjörð utan um líf okkar og athafnir. Áhrifin þaðan koma úr nánasta umhverfi, og endurspegla tíðarandann hverju sinni. Tímarnir breytast hratt og fólk kemur og fer á einn eða annan hátt.
Myndirnar á sýningunni eru persónuleg skrásetning á umhverfi, manngerðum og samfélagi. Farið er hús úr húsi með það að markmiði að mynda fegurð hversdagsleikans.
Sýningin er styrkt af Menningarráði Vesturlands.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei