budardalur.is

DalabyggðFréttir

Formleg opnun á vefnum www.budardalur.is verður mánudagskvöldið 28. maí, annan í hvítasunnu, kl.20 í Leifsbúð. Þar gefst fólki kostur á því að koma með spurningar varðandi verkefnið eða koma á framfæri hugmyndum sem snúa að verkefninu.

Undirbúningur vefsíðunnar Búðardalur.is – Menningarmiðja Dalanna hefur verið í gangi í um það bil eitt ár. Um er að ræða vettvang þar sem safnað er saman gömlum heimildum úr Dölum. Gefa á fólki kost á að koma efni í birtingu sem hefur menningarlegt og sögulegt gildi fyrir Dalina og gera þetta að sameiginlegu verkefni.
Þessi vettvangur verður einnig til að halda utan um nútímann, og birtar verða fréttir, ljósmyndir og eftir atvikum myndbönd af atburðum og fréttatengdu efni úr Dölum. Vefmyndavél hefur verið sett upp í Búðardal og mun vefmyndavélin verða aðgengileg á vefsíðunni fyrir þá sem áhuga hafa, til dæmis til að gá til veðurs í Dölum.
Það helsta sem verður að finna á vefsíðunni í upphafi eru fréttir, fróðleikur, ljósmyndasafn, myndbandasafn, menningarlíf, sagan, upplýsingar fyrir ferðamenn, upplýsingar um landbúnað í Dölum, spjallborð þar sem notendur geta skráð sig inn og efnt til umræðna, vefmyndavél, flettiforrit þar sem hægt verður að fletta í gömlu Dalablöðunum og öðrum ritum sem gefin voru út í Dölum á árum áður. Einnig má nefna viðburðadagatal og póstlistakerfi.
Við óskum eftir áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á því að skrifa efni á vefinn, hvort heldur eru fréttir, greinar eða annað.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei