Dalaveitur – vinna í kringum lagnir

Kristján IngiFréttir

Þegar lýður að vori huga sjálfsagt margir að girðingarvinnu, greftri eða öðrum framkvæmdum sem fela í sér jarðrask á landareign sinni. Áður en ráðist er í slíkt er nauðsynlegt að kanna hvort og hvaða veitur gætu verið í jörð á eða við framkvæmdarsvæðið. Meðal þeirra er ljósleiðarakerfi Dalaveitna sem liggur um flestar jarðir í Dalabyggð. Undirsíða Dalaveitna ehf. hefur verið uppfærð með ítarlegri upplýsingum um verkleg þegar kemur að vinnu nærri ljósleiðaranum og kortasjá sem auðveldar landeigendum og öðrum að sjá gróflega legu ljósleiðarans um sveitarfélagið. Mikilvægt er að gefa sér ekki neinar forsendur eða áætla legu sjálf, heldur hafa samband við viðkomandi veitu áður en vinna hefst.

 

Leiðbeiningar um verkleg nærri ljósleiðaralögnum Dalaveitna:

Kortasjá fyrir dreifikerfi Dalaveitna. Þar er sýnd gróf lega ljósleiðara og er hugsuð sem yfirlitsmynd yfir kerfið og til skoðunar á hvort ljósleiðari sé nálægt fyrirhuguðu jarðraski landeigenda og annarra. Einni má leita eftir svörtum plasthælum, sem eru í lagnaleið strengja, til að sjá gróflega staðsetningu. Mikilvægt er að hafa samband og fá nánari upplýsingar um staðsetningu áður en farið er í jarðrask í grennd (minna en 50-100m frá ætlaðri legu) við ljósleiðarastreng. Sé fyrirhugað jarðrask nærri streng mun starfsmaður Dalaveitna koma á staðinn og merkja út staðsetningu og gefa leiðbeiningar ef gera þarf frekari ráðstafanir. Hafa skal samband með að minnsta kosti 2-3 virkra daga fyrirvara! Ábendingar um mögulegar villur í kortasjá má gjarnan senda á ofangreint netfang.

Framkvæmdaraðili sem ekki tilkynnir um vinnu við streng  getur þurft að bera kostnað af viðgerð, verði hann fyrir skemmdum! Með framkvæmdum er átt við rask sem er meira en hefðbundin plæging túna og hreinsun skurða. Dalaveitur bera annars kostnað af viðgerð vegna slysa eða tjóna sem rekja má til frágangs kerfisins, t.d. ef strengur skemmist við hefbundna umferð eða minniháttar framkvæmdir landeiganda.

Hafa skal í huga aðrar veitur sem eru með dreifikerfi í jörð í dreifbýli Dalabyggðar, t.d. hitaveita (Reykjadal-Búðardal) og rafstrengir Rarik, fjarskiptalagnir Mílu og Orkufjarskipta og vatnsveita Dalabyggðar (Svíndalur-Búðardal).

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei