Dalir og hólar 2014

DalabyggðFréttir

Dalir og hólar 2014 – LITUR er myndlistasýning í Dölum og Reykhólasveit frá 5. júlí til 10. ágúst.
Á sýningunni eru verk eftir myndlistamennina Bjarka Bragason, Eygló Harðardóttur, Gerd Tinglum, Loga Bjarnason og Tuma Magnússon. Sýningarstjórar eru Sólveig Aðalsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir.
Sýningin kallast á við fyrri Dala og hóla-sýningar að því leyti að hún hefur að markmiði að taka þátt í mannlífi svæðisins, efna til samstarfs við heimamenn og leiða sýningargesti í ferðalag um þetta fjölbreytta og fallega svæði sem umlykur Breiðafjörðinn. Sýningin er á ýmsum stöðum á svæðinu og verkin geta verið staðsett t.d. á atvinnusvæði, í yfirgefnum húsum eða utandyra.
Þema sýningarinnar að þessu sinni er litur. Listamennirnir munu vinna verk sérstaklega fyrir sýninguna þar sem hugtakið litur verður skoðað út frá bæði hlutlægum og huglægum gildum. Viðfangsefnið er áhrif lita, vægi og merking þeirra í gegnum söguna, í umhverfi og listum.
Prentuð sýningarskrá er jafnframt kort af sýningarsvæðinu og veitir leiðsögn um það. Hún verður aðgengileg á helstu áfangastöðum á Vesturlandi.
Við Breiðafjörð og í Dölum hafa margir listamenn slitið barnsskónum eða unnið lífsverk sitt. Svæðið býr enda yfir fjölskrúðugri náttúru, fjölbreyttu fugla- og dýralífi, menningu og sögu. Þar má finna ótæmandi uppsprettu nýrra verka og nýsköpunar.
Myndlistasjóður styrkir Dali og hóla 2014. Framlag listamannanna, örlæti staðareigenda á svæðinu og stuðningur Ólafsdalsfélagsins, Nýpurhyrnu, Dalabyggðar/Byggðasafns Dalamanna, Reykhólasveitar, hafa gert þessa sýningu mögulega.
Sýningarstaðir eru
Byggðasafn Dalamanna á Laugum í Sælingsdal
Skarðsstöð á Skarðsströnd
Ytri-Fagridalur á Skarðsströnd
Staðarhóll í Saurbæ
Ólafsdalur í Gilsfirði
Króksfjarðarnes, gamla kaupfélagshúsið
Norðursalt á Reykhólum
Grettislaug á ReykhóluM
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei