Eldri félagar Karlakórs Reykavíkur

DalabyggðFréttir

Laugardaginn 6. apríl munu Eldri félagar í Karlakór Reykjavíkur fylla Dalabúð af karlakórssöng. Tónleikarnir hefjast kl. 16 og er frítt inn á tónleikana.
Gömul og góð íslensk lög verða í öndvegi undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar. Friðrik er hugsanlega eini kórstjórinn í heiminum sem stjórnar þremur kynslóðum karla; Drengjakór Reykjavíkur, Karlakór Reykjavíkur og Eldri félögum í Karlakór Reykjavíkur.
Til sölu verður hljómdiskurinn Hraustir menn sem Eldri félagar gáfu út nýlega. Á honum eru m.a. nokkur lög sem söngkvartettinn Leikbræður söng inn í hjörtu manna á sínum tíma. En rætur Leikbræðra liggja í Dölunum. Allir sungu þeir með Karlakór Reykjavíkur og síðar með eldri félögum kórsins. Þessi gömlu Leikbræðralög sungu Eldri félagar í Karlakór Reykjavíkur í Dalabúð vorið 2005 til heiðurs Leikbræðrum, en þá voru liðin 60 frá stofnun kvartettsins.
Allir söngelskir Dalamenn eru velkomnir og aðgangseyrir er enginn.

Ljósm. Jóhannes Long

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei