Engin takmörk á frístundastarfi barna og ungmenna í 1.-10. bekk Auðarskóla

DalabyggðFréttir

Á haustönn 2022 geta nemendur í 1. – 10. bekk Auðarskóla í Dalabyggð valið sér hvaða félagsstarf, íþróttir og tómstundir sem þau vilja, óháð framboði í heimabyggð.

Á 299. fundi byggðarráðs Dalabyggðar var eftirfarandi samþykkt: 

Byggðarráð Dalabyggðar samþykkir að breyta reglum um frístundastyrk hjá sveitarfélaginu á þann veg að hann nái einnig til félagsstarfs, námskeiða, íþrótta og annarra tómstunda sem ekki eru í boði í sveitarfélaginu. Þannig verður m.a. hægt að nýta styrkinn á móti námskeiðum eða kennslu sem fer fram í gegnum netið.

Að auki verður styrkurinn hækkaður, tímabundið, fyrir þennan aldurshóp á haustönn 2022 og bætast 10.000 kr.- við styrkinn fyrir hvern einstakling í 1. til 10. bekk. Viðbótarfjármagnið er styrkur frá Stjórnarráði Íslands til að efla virkni og vellíðan barna og ungmenna.

Að öðru leyti gilda reglur Dalabyggðar um frístundastyrk fyrir börn og ungmenni, þ.e. viðkomandi þarf að eiga lögheimili í Dalabyggð og til að fá styrkinn greiddan þarf að skila greiðslukvittun á skrifstofu Dalabyggðar fyrir 15. desember nk.

Það er von byggðarráðs að þessi samþykkt verði til þess að hvetja börn og ungmenni í Dalabyggð til að iðka íþróttir, sækja sér námskeið og sinna almennum tómstundum og styrkja þannig félagslega færni þessa dýrmæta hóps í samfélaginu.

Við bendum á að styrkurinn nýtist einnig til að greiða staðfestingar- eða skráningargjald á einhverju sem fer fram eftir áramót, svo lengi sem gjaldið er greitt fyrir áramót, þ.e. á árinu 2022. Þó er ekki greitt aftur í tímann, þ.e. fyrir námskeið, félagsstarf, æfingar eða annað sem er lokið. Greiðsla þarf að fara fram á haustönn 2022 til að fást endurgreidd.

Við hvetjum foreldra til að skoða úrval þeirrar afþreyingar sem er í boði.

Forritun? Dans? Tónsmíði? Förðun? Karate? Tungumál? Fimleikar? Hundaþjálfun? Tölvuteikning? Prjónanámskeið? Jóga? Ljósmyndun? Matargerð? Grafísk hönnun? Skapandi skrif? Myndvinnsla? Klifur? Minecraft? Bogfimi? Vélmennasmiðja? Sjálfsstyrking? Myndasögugerð? Sund? Leiklist? Tölvuleikjagerð?

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei