Bleiki dagurinn 2022 – föstudaginn 14. október

DalabyggðFréttir

Á Bleika deginum eru landsmenn hvattir  til að sýna lit og bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu.

Bleiki dagurinn föstudaginn 14. október 2022!
Föstudagurinn 14. október 2022 er Bleiki dagurinn. Hvernig væri nú að skipuleggja bleikt morgunkaffi í vinnunni eða heima fyrir? Einnig er tilvalið að klæðast bleikum fötum í tilefni dagsins.

Í ár er athygli vakin á að það er ýmislegt sem hver og einn getur gert til að draga úr líkum á krabbameinum. Sérstaklega er minnt á mikilvægi skimana fyrir krabbameinum. Ár hvert bjarga skimanir fyrir krabbameini í leghálsi og brjóstum lífi fjölda kvenna. Þau gætu þó verið fleiri því stór hópur mætir ekki reglulega í skimun. Konur eru hvattar til að bóka tíma þegar þær fá boð. Því fyrr sem krabbamein eða forstig þess greinist því betri eru horfurnar. 

Krabbameinsfélagið starfar á fjölbreyttan hátt að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Með kaupum á Bleiku slaufunni eða öðrum stuðningi við átakið eigum við þátt í því starfi sem felst meðal annars í öflugu vísindastarfi, fræðslu og forvörnum og endurgjaldslausum stuðningi og ráðgjöf fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei