Forgangröðun vegaframkvæmda afhent innviðaráðherra og vegamálastjóra

DalabyggðFréttir

Þriðjudaginn 4. júlí var nýsamþykkt forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð afhent Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og Bergþóru Þorkelsdóttur, vegamálastjóra.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri hitti vegamálastjóra í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Suðurhrauni og afhenti henni forgangsröðunina. Pálmi Þór Sævarsson, umdæmisstjóri Vestursvæðis var með þeim í gegnum fjarfundabúnað.

Vegagerðin fagnar því þegar hugmyndir manna í héraði eru settar fram á vandaðan og frambærilegan hátt eins og hér er gert. Það er mjög gott fóður fyrir okkur í þeirri vinnu sem hér fer fram.“ sagði Bergþóra eftir að hafa fengið skjalið afhent um leið og hún þakkaði fyrir.

Bjarki afhendir Bergþóru forgangsröðun Dalabyggðar í vegaframkvæmdum

Björn Bjarki Þorsteinsson fékk svo Garðar Freyr Vilhjálmsson, formann atvinnumálanefndar og Guðlaugu Kristinsdóttur, formann umhverfis- og skipulagsnefndar og Stefán Vagn Stefánsson, fyrsta þingmann NV-kjördæmis með sér í Innviðaráðuneytið þar sem ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson tók á móti þeim. 

Við tilefnið sagði Sigurður m.a.: „Það er ánægjulegt að fá í hendur skýrslu um forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð þar sem áhersla er á greiðar og öruggar samgöngur til að styðja við jákvæða byggðaþróun. Í drögum að samgönguáætlun 2024-2034 sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda er stóraukið fjármagn sett í tengivegi, og mun þá tengivegapotturinn fara úr 1 ma. kr  í 2,5 ma.kr. Áfram verður unnið markvisst að lagningu bundins slitlags á tengivegi sem styður við atvinnu- og byggðaþróun og forgangsraðað mtt umferðar, ástands vega, skólaaksturs, ferðaþjónustu og óska sveitarfélaga. Þær framkvæmdir sem eru þegar komnar inn á framkvæmdaráætlun halda þannig áfram til að tryggja ákveðna samfellu.

Það er ánægjulegt að sjá þau viðbrögð sem forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð fær. Nú þegar hefur hún einnig verið send þingmönnum Norðvesturkjördæmis, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, fjárlaganefnd Alþingis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samgöngustofu, Byggðastofnun, Samgöngufélaginu, Samtökum ferðaþjónustunnar og sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga.

Það var ánægjulegt að ná fundum með þeim Sigurði Inga og Bergþóru til að afhenda skýrsluna góðu sem atvinnumálanefnd Dalabyggðar hefur lagt mikla vinnu og metnað í að gera og sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkt. Það er gríðarlega mikilvægt að til Dalabyggðar verði horft nú í framhaldinu, bæði hvað varðar framhald á endurbótum á Skógarstrandarvegi og einnig varðandi áframhald á endurbótum á tengivegi á Klofningsvegi. Við kunnum að meta þau verkefni að þau séu hafin en óskum jafnframt eindregið að samfella verði í áframhaldandi endurbótum þessara vega sem um ræðir og að horft verði til þeirrar forgangsröðunar sem við í Dalabyggð leggjum til í skýrslu okkar.“ sagði Björn Bjarki að lokinni vel heppnaðri ferð á höfuðborgarsvæðið til að afhenda forgangsröðunina.

Frá vinstri: Björn Bjarki Þorsteinsson, Garðar Freyr Vilhjálmsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðlaug Kristinsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson

Frá vinstri: Björn Bjarki Þorsteinsson, Garðar Freyr Vilhjálmsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðlaug Kristinsdóttir og Stefán Vagn Stefánsson

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei