Fyrirlestur að Nýp

DalabyggðFréttir

Fyrirlestur verður að Nýp á Skarðsströnd sunnudaginn 19. ágúst kl 14. Þar mun dr. Einar G. Pétursson mun fjalla um Guðbrand Vigfússon (1827-1889) frá Litla-Galtardal á Fellsströnd.
Guðbrandur Vigfússon (1827-1889) var málfræðingur og textafræðingur. Hann var einn af fremstu norrænufræðingum 19. aldar og starfaði lengst í Oxford á Englandi.
Erindið verður um Guðbrand, ættir hans, uppvöxt, námsferil og ritsstörf. Guðbrandur var trúlofaður Elínborgu Kristjánsdóttur Magnusen á Skarði og eru um það heimildir í bréfasafni Guðbrands í Oxford.
Getið er samskipta Guðbrands og Jóns Sigurðssonar og einnig við norska fræðimanninn Unger og þýska fræðimanninn Maurer, sem studdi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og vann að útgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar.
Guðbrandur fór til Englands 1864 og dvaldi þar til dauðadags 1889. Merkustu verk hans þar eru ensk-íslensk orðabók og útgáfa Sturlungu.
Einar G. Pétursson er fæddur 1941 í Stóru-Tungu á Fellsströnd, stúdent úr Menntaskólanum á Akureyri 1961, cand. mag. í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1970 og doktor frá sama skóla 1998. Hann starfaði lengst af við Stofnun Árna Magnússonar og er nú rannsóknaprófessor emeritus.

Nýpurhyrna

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei