Gleðilegt sumar !

SveitarstjóriFréttir

Ágætu íbúar Dalabyggðar, um leið og ég óska ykkur gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn, þó rysjóttur hafi verið seinni hlutann, þá langar mig til þess að koma nokkrum fréttamolum á framfæri hér í upphafi sumars.

Glæsileg árshátíð Auðarskóla

Ég vil byrja á að þakka nemendum og öllum þeim sem komu á framkvæmd árshátíðar Auðarskóla. Jafnframt vil ég koma á framfæri hrósi til þessa hóps fyrir alla framkvæmd í kringum árshátíð skólans sem haldin var 21. mars sl. Við megum svo sannarlega vera stolt af okkar fólki og mikilvægt að við munum að skólinn er fjöregg hvers samfélags og mikilsvert að sem best sé stutt við alla starfsemi skólans á hverjum tíma.

Ársreikningur 2023

Ársreikningur Dalabyggðar 2023 var samþykktur við seinni umræðu á 245. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar sem haldinn var fimmtudaginn 11. apríl 2024. Það má segja að niðurstaða ársreiknings Dalabyggðar fyrir árið 2023 sé viðunandi m.v. aðstæður og var niðurstaðan jákvæð um sem nemur 106,7 millj.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu upp á 63,1 millj.kr. og er því niðurstaðan 69,4% yfir áætlun. Brugðist hefur verið við af festu gagnvart þeim þáttum sem nefndir voru við afgreiðslu ársreiknings Dalabyggðar fyrir árið 2022 hvað varðar B hluta stofnanir. Má þar helst nefna rekstur Silfurtúns, Dalaveitna (ljósleiðarahluta) og félagslegs húsnæðis. Með þeim aðgerðum sem farið hefur verið í er búið að stöðva „blæðingu“ úr sjóðum Dalabyggðar um sem nemur allt að 45 millj.kr. árlega. Þannig er rekstrargrundvöllur sveitarsjóðs treystur til framtíðar sem því nemur. Þær aðgerðir og sá árangur sem hefur náðst í rekstri Dalabyggðar gerist ekki af sjálfu sér. Er sveitarstjórn og starfsfólki Dalabyggðar þakkað fyrir samstarfið í kringum þær aðgerðir sem farið hefur verið í sem og fyrir gott samstarf það sem af er kjörtímabilinu.

DalaAuður

Miðvikudaginn 17. apríl var úthlutað úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs. Úthlutunarhátíðin var haldin í Árbliki í Dalabyggð. DalaAuður er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Dalabyggðar og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og er eitt af verkefnum undir hatti brothættra byggða. Þetta er þriðja úthlutun úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs. Til úthlutunar voru 18.350.000 kr. og er það töluverð hækkun frá síðasta ári en þá voru rúmar 12 milljónir til úthlutunar. Fjölbreytt flóra verkefna fengu styrk að þessu sinni og er bæði um að ræða samfélagsverkefni og atvinnuskapandi verkefni. Það verður spennandi að fylgjast með verkefnunum glæðast lífi næsta árið.

Skátafélagið Stígandi

Fimmtudaginn 18. apríl var undirritaður samstarfssamningur milli Dalabyggðar og Skátafélagsins Stíganda. Markmið samningsins er meðal annars að skilgreina og efla tengsl sveitarfélagsins og skátafélagsins með það að markmiði að styrkja Dalabyggð frekar sem áhugaverðan og góðan búsetukost, þar sem m.a. fari fram kraftmikið skátastarf, íbúum sveitarfélagsins til heilla. Með samningnum fær klúbburinn afnot af aðstöðu fyrir bæði búnað og fundi ásamt rekstrarframlagi en framlag samningsins er metið á  990.000 kr.- Samningurinn gildir til ársloka 2026 og er það von Dalabyggðar að með samningnum fái skátastarfið að blómstra áfram, styrkja og efla þátttakendur.

Íslandspóstur

Pósturinn (Íslandspóstur ohf.) hefur tilkynnt sveitarfélaginu um áform sín um að loka afgreiðslu félagsins í Búðardal þann 1. júní n.k. Við tókum að sjálfsögðu til varna því staðsetning Búðardals er þannig að erfitt er að réttlæta þá lokun og auðvitað er vont að missa störf í samfélaginu. Það er umhugsunarefni hvernig haldið er á málum sem þessu. Byggðastofnun er til að mynda gert að kalla eftir sjónarmiðum sveitarfélaga en engu að síður er fyrirtækið, Íslandspóstur ohf., – sem er í eigu ríkisins að fullu, búið að tilkynna starfsfólki og öðrum um áform sín í raun löngu áður en umsagnarfrestur er liðinn, skrýtin aðferðarfræði svo ekki sé meira sagt. Byggðarsjónarmið þau sem birtast í stefnu stjórnvalda eru hér að mínu mati fótum troðin án þess að stjórnvöld hreyfi nokkuð við málum.

Vegir og vegleysur

Við höfum ítrekað undanfarnar vikur vakið athygli á grafalvarlegri stöðu sem uppi er í vegamálum í Dölunum. Ekki hafa komið svör við endurteknum óskum okkar um fund með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, frá formanni þeirrar nefndar né öðrum sem koma að umræðum um forgangsröðun í vegmálum. Starfsmenn Vegagerðarinnar í Búðardal eiga alla mína samúð, eru að reyna sitt besta við mjög erfiðar aðstæður, búið að handmoka tugum tonna í holufyllingar sem duga stutt. Það er neyðarástand á Vestfjarðarvegi í gegnum Dali, vegurinn er hættulegur öllum þeim sem um hann þurfa að fara, skólabörnum, öðru heimafólki sem og öllum öðrum. Því er þessi æpandi þögn ráðamanna í vegamálum um ástandið orðin ansi þreytt vægast sagt og virðingarleysið algert. Vonandi náum við augum og eyrum þeirra sem ráða og upplifum viðbrögð á næstu misserum, annað er ólíðandi.

Kennslulaug við Dalabúð

Aðstaða í kringum kennslusundlaug í Dalabúð hefur fengið andlitslyftingu í kjölfar þess að Heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemdir við aðbúnað og fleira. Var gripið snarlega til aðgerða, löngu tímabærra, því um var að ræða m.a. rakaskemmdir og hefði ekki verið brugðist við nú hefði það geta haft ófyrirséðar afleiðingar hvað almenna starfsemi í Dalabúð varðar. Vonandi náum við að halda aðstöðunni í lagi og að aðbúnaður barnanna okkar í Auðarskóla og starfsmanna verði viðunandi þannig að sómi sé að þar til ný aðstaða verður tekin í notkun. Vil ég hér þakka starfsmönnum okkar og þeim iðnaðarmönnum sem komu að fyrir snör og góð viðbrögð sem og starfsmönnum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands fyrir góð samskipti í kringum þessar aðgerðir.

Íþróttamannvirki

Fyrst minnst er á sundlaug og þar með íþróttamannvirki. Í öllum okkar áætlunum um rekstur Dalabyggðar til næstu ára og fjárfestingar á þeim tíma höfum við gert ráð fyrir annarsvegar uppbyggingu íþróttamannvirkja í Búðardal sem og rekstri þeirra til lengri tíma. Hefur sveitarstjórn verið algerlega einhuga í þeirri afstöðu sinni að um leið og tækifæri gefst á fjármálamarkaði til lántöku að farið verði af stað í framkvæmdirnar og er þar engin breyting á og vonir okkar standa til að við getum fyrr en seinna stungið niður skóflu og hafið framkvæmdir við þetta langþráða og nauðsynlega mannvirki.

  1. júní og afmæli Dalabyggðar

Eins og áður mun Dalabyggð fagna Þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní nk. Árið í ár er sérstakt fyrir þær sakir að í ár er einnig 80 ára afmæli lýðveldisins og þann 11. júní verður sameinaða sveitarfélagið Dalabyggð 30 ára. Því langar okkur að gera eitthvað aukalega í tilefni af þessum tímamótum og því höfum við leitað til íbúa, fyrirtækja, félagasamtaka og allskonar félagsskapar í héraðinu með von um þátttöku með einhverjum hætti. Dalabyggð hefur tekið Dalabúð frá fyrir þennan dag en ef veður leyfir verður jafnvel dagskrá utandyra sem og annars staðar í sveitarfélaginu, nánar um þetta síðar en vonandi verða veðurguðirnir með okkur í liði og við getum fagnað þessu tvöfalda afmælisdegi saman á eftirminnilegan hátt.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru varðandi það sem á döfinni er hjá okkur í Dalabyggð. Það er nóg um að vera og spennandi tímar fram undan með hækkandi sól og hitastigi hér í Dölunum okkar góðu.

Meðfylgjandi er mynd sem tekin var miðvikudaginn 23. apríl 2024 á góðviðriðisdegi í Saurbænum þegar undirritaður tók ökuferð til að kanna vegi, og já vegleysur á Svínadal.

Með vinsemd og góðum sumarkveðjum,

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei