Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur komið á fót styrkjum til verkefna og viðburða á málefnasviðum ráðuneytisins. Styrkirnir verða veittir tvisvar sinnum á ári, vor og haust, en opið er fyrir umsóknir allt árið. Styrkupphæð getur numið allt að einni milljón króna fyrir hvert verkefni. Þetta eru smæstu styrkirnir sem formlega er úthlutað á vegum ráðuneytisins og því við hæfi að kenna þá við minnsta fugl landsins.
Glókollsstyrkir eru ætlaðir til verkefna og viðburða á sviði háskólamála, iðnaðar, nýsköpunar, rannsókna og vísinda, hugverkaréttinda, fjarskipta og netöryggis. Hvorki eru veittir styrkir til ríkisstofnana eða sveitarfélaga né rekstrarstyrkir, styrkir til nefndarsetu eða styrkir til B.A./B.S. eða meistaraprófa. Samkvæmt úthlutunarreglum mun matshópur skipaður af ráðherra meta umsóknir en horft verður til ýmissa þátta við úthlutunina, m.a. hvort verkefnin þyki hafa gildi fyrir starfsemi viðkomandi málaflokks, hvort verkefnið búi yfir sérstöðu eða nýnæmi og hvort markmið og mælikvarðar séu skýrir. Frekari upplýsingar um styrkhæfi, mat á umsóknum og viðmið má finna í úthlutunarreglum Glókolls.
Opnað verður fyrir umsóknir um styrki í september og verður það auglýst á miðlum ráðuneytisins.