Grænn apríl – spilliefni

DalabyggðFréttir

Spilliefni eru skaðleg umhverfi, mönnum og dýrum. Þau geta borist í gegnum vatn og andrúmsloft í fæðukeðjuna og valdið þannig tjóni.
Á heimilum eru ýmis konar spilliefni í notkun. Til dæmis hreinsiefni, málning, lím, þynnir, húsgagnabón, leysiefni, lyf, rafhlöður, kvikasilfur í hitamælum, lakk, stíflueyðir, skordýraeitur, úðabrúsar ofl.
Í bílum eru líka spilliefni, t.d. frostlögur, olíuefni og ekki síst rafgeymar sem innihalda blýsýru sem er mjög skaðleg umhverfinu.
Oft á tíðum notar fólk mun sterkari efni en raunveruleg þörf er á. Það er gott að bera saman vörur með umhverfisáhrif þeirra í huga og velja síðan vistvænni kostinn.
Í mörgum tilfellum gerir fólk sér ekki grein fyrir hvað það er með í höndunum og að spillefni má ekki setja í ruslapokann, hella í vaskinn, salernið, eða niðurfallið því spilliefni menga umhverfið.
Á mörg spilliefni er lagt umhverfisgjald og þeim ber að skila til eyðingar samkvæmt lögum. Spilliefnum skal skila í lokuðum umbúðum á endurvinnslustöðvar. Réttar merkingar á ílátum auðvelda flokkun spilliefna.
Efnin fara frá endurvinnslustöðvum til Efnamóttökunnar hf. í Gufunesi þar sem þau eru meðhöndluð á réttan hátt og komið til eyðingar eða í endurvinnslu.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei