Hafratindur fjall Dalanna

DalabyggðFréttir

Eftir að hafa hlotið tæplega 60% tilnefninga, tilnefningu menningar- og ferðamálanefndar Dalabyggðar og staðfestingu sveitarstjórnar Dalabyggðar þá telst Hafratindur nú opinberlega vera fjall Dalanna.
Hafratindur er 923 m.y.s. og er eitt af hæstu fjöllum í Dölum. Tröllakirkja á mörkum Haukadals, Strandasýslu og Mýrasýslu er hæst 1.001 m.y.s. Ekki fundust viðurkenndar mælingar á hæð Gamalhnúka í Miðdölum, en þeir eru að öllum líkindum einhverjum metrum hærri en Hafratindur.
Hafratindur lítur út eins og tindur úr Fagradal og Breiðafirði séð, en er í raun allstór fjallgarður eins og sést betur úr Saurbæ og Gilsfirði.
Hafratindur liggur á mörkum Skarðsstrandar og Saurbæjar. Þar koma saman merki jarðanna Ytri-Fagradals á Skarðsströnd og Fagradalstungu, Þverdals og Kjarlaksvalla í Saurbæ.
Fjallið er nokkuð auðþekkjanlegt, sérstaklega úr Fagradal séð. Hafratindur er þekkt kennileiti við gamlar þjóðleiðir og setur svip á landslagið og nýtur sín ekki síður úr fjarlægð af Breiðafirði og Vestfjörðum.
Ekki fer neinum sögum af hvers vegna fjallið heitir Hafratindur, en mun hér líklegast um geithafra að ræða, því Geitadalur liggur meðfram fjallinu.
Nokkrar gönguleiðir eru á og af fjallinu og býður það því upp á fjölbreyttar gönguleiðir. Gönguleiðir eru úr Fagradal, Traðardal, Þverdal, Sælingsdal og víðar. Í árbók Ferðafélags Íslands 2011 „Í Dali vestur“ er gönguleiðinni úr Sælingsdal um Hafratind yfir í Fagradal lýst á bls. 149.
Fjallið er þokkalega auðvelt uppgöngu, en þó hæfileg áskorun venjulegu fólki. Hvergi erfið ganga, en brött á köflum og eitthvað um stórgrýti. Eitthvað er misjafnt eftir leiðum hversu langan tíma tekur að ganga á fjallið og er flestu venjulegu fólki ráðlagt að taka daginn í ferðina. Rétt er og að ráðfæra sig við bændur við fjallið.
Víðsýnt er af Hafratindi. Þaðan sést við góðar aðstæður yfir Dali, Snæfellsnes, Borgarfjörð, norður á Skaga, Drangajökull, Vestfirðir, Barðaströnd og að sjálfsögðu yfir Breiðafjörð í öllu sínu veldi. Af tindinum á að vera hægt að sjá 7 jökla. Þá er ekki síðra að virða fyrir sér það sem nær er.
Í myndasafni má sjá nokkrar ljósmyndir af Hafratindi frá ýmsum sjónarhornum árið um kring.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei