Árni Magnússon fræðimaður og handritasafnari fæddist 13. nóvember 1663 á Kvennabrekku í Náhlíð. Foreldrar hans voru Magnús Jónsson prestur, síðar lögsagnari og sýslumaður og Guðrún Ketilsdóttir á Kvennabrekku.
Lítið er vitað um æsku Árna og uppvöxt í Dölunum. Hann ólst upp hjá móðurforeldrum sínum í Hvammi, Katli Jörundssyni prófasti og Guðrúnu Ketilsdóttur. Hann hlaut sína fyrstu menntun undir handarjaðri Ketils afa síns, en við andlát Ketils tók Páll móðurbróðir Árna við uppfræðslu hans.
Í ár eru því 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar og mun Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum minnast þess með margvíslegum hætti allt árið. Handritin alla leið heim er eitt af verkefnum Árnastofnunar á afmælisárinu.
Eftirlíkingar af sex handritum verða sýndar á sex stöðum vítt og breitt um Ísland, sem næst þeim stöðum sem Árni fékk þau. Fyrsta eftirgerðin verður afhent í heimahéraði Árna, Dölunum. Um er að ræða eftirgerð að rímnahandriti frá Staðarhóli í Saurbæ. Áætlað er að Dalamenn muni taka á móti eftirgerðinni sunnudaginn 28. apríl í Tjarnarlundi.
Byggðasafn Dalamanna, Héraðsskjalasafn Dalasýslu, Nýpurhyrna og Árnastofnun fengu 1.000.000 kr styrk frá Menningarráði Vesturlands til verkefnisins.