Helgin 15. – 17. ágúst

DalabyggðFréttir

Heldur rólegra verður í Dölunum þessa helgi en þá síðustu, en ýmislegt um að vera í nágrenninu. Danskir dagar verði í Stykkishólmi, Íslandsmótið í hrútadómum í Sævangi á Ströndum og á Laugum verða Ellen, Eyþór og kvöldverður á Hótel Eddu.

Danskir dagar í Stykkishólmi

Bæjarhátíð Hólmara, Danskir dagar, verður haldin helgina 15.-17. ágúst í tuttugasta skiptið.

Á dagskrá hátíðarinnar er m.a. brekkusöngur, flugeldasýning, skottmarkaður, markaðstjald, kökuátskeppni, hoppukastalar, uppboð, bryggjuball og ýmis konar skemmtidagskrá.
Nánari upplýsingar eru á facebooksíðu danskra daga.

Íslandsmót í hrútadómum í Sævangi

Laugardaginn 16. ágúst verður haldið Íslandsmót í hrútadómum, lambahappdrætti, kaffihlaðborð, kjötsúpa og ný sögusýning á Sauðfjársetri á Ströndum. Aðgangur að hátíðinni og sýningum Sauðfjársetursins er ókeypis í tilefni dagsins.

Í hrútadómum er keppt í flokki vanra og óvanra hrútaþuklar og að vegleg verðlaun í boði í báðum flokkum.
Ný sögusýning verður opnuð í sérsýningarherbergi sauðfjársetursins „Brynjólfur Sæmundsson og starf héraðsráðunauta“. Þar verður sagt frá störfum ráðunauta með sérstaka áherslu á Brynjólf, en hann var héraðsráðunautur á Ströndum í meira 1959-2003.
Í vinninga í happdrættinu verða 3 lambhrútar (84 stig eða meir), forystugimbur og flekkótt gimbur frá völdum sauðfjárbúum á Ströndum.
Nánari upplýsingar er að finna á facebook síðu Sauðfjársetursins.

Ellen, Eyþór og kvöldverður á Laugum

Laugardaginn 16. ágúst munu þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson flytja hugljúfa dægurlagatónlist eins og þeim einum er lagið á Hótel Eddu Laugum í Sælingsdal.
Í tilefni af tónleikum þeirra verður sælkeraveislu, sem hefst kl. 18:30. Í boði verður fjögurra rétta matseðill að hætti Ragnars Wessman og Trausta Víglundssonar.
Þá mun Jóhannes Kristjánsson eftirherma og skemmtikraftur sjá til þess að allt fari vel fram á sinn einstaka hátt.
Við bjóðum einnig upp á frábært tilboð á laugardeginum sem felur í sér gistingu í eins eða tveggja manna herbergi, morgunverð, gala kvöldverðin og tónleikana.
Verð fyrir kvöldverð án gistingar er 7.900 kr, auk tilboðs á gistingu. Nánari upplýsingar á heimasíðu Hótel Eddu.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei