Helgin 9. – 11. ágúst

DalabyggðFréttir

Ýmislegt er um að vera hér í Dölum um helgina. Á laugardag verður helgistund í Dagverðarneskirkju, ganga og tóvinnunámskeið í Ólafsdal og kvennareið um Saurbæ. Á sunnudaginn er síðan Ólafsdalshátíð.

Ólafsdalsganga

Gengið upp úr skálinni ofan við skólahúsið, farinn hringur um dalinn á fjallsbrúnum og niður Taglið gegnt bænum (erfiðleikastig – tveir skór). Engin skráning er í gönguna, bara að mæta í Ólafsdal fyrir kl. 10.

Kvennareið

Árleg kvennareið í Dölum verður að þessu sinni í Saurbænum. Mæting er að Miklagarði kl. 13 og lagt verður að stað kl. 14. Riðið verður um Saurbæ og endað í Tjarnarlundi. Skráningu í kvennareiðina er lokið.

Helgistund í Dagverðarnesi

Laugardaginn, 10. ágúst, verður hin árlega helgistund í Dagverðarneskirkju og hefst athöfnin kl. 14. Halldór Þórðarson, organisti, mætir með harmonikkuna og leiðir almennan safnaðarsöng. – Sigrún Halldórsdóttir leikur á klarinett og Ríkarður Jóhannsson á saxofón. Eftir athöfnina verður boðið upp á kirkjukaffi á Ormsstöðum að venju.

Tóvinnunámskeið

Tómvinnunámskeið fyrir börn og ungmenni verður haldið kl. 14-17 í Ólafsdal í samstarfi Ólafsdalsfélagsins og Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Unnið verður með íslenska ull, tekið ofan af, kembt og spunnið á halasnældu og krílað. Kennari er Marianne Guckelsberger. Upplýsingar um skráningu er að finna á heimasíðu Ólafsdalsfélagsins.

Ólafsdalshátíð

Árleg Ólafsdalshátíð verður sunnudaginn 11. ágúst með upphitun á laugardeginum. Frítt er inn á hátíðina en gestir eru hvattir til að kaupa lífrænt vottað Ólafsdalsgrænmeti og taka þátt í veglegu Ólafsdalshappdrætti. Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur og eftirherma mun stýra hátíðinnni.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei