Hvalir á Hvammsfirði – fyrsti apríl

DalabyggðFréttir

Mikil loðna hefur verið á Breiðafirði undanfarið og hefur hún m.a. gengið inn á Hvammsfjörð. Í kjölfar loðnunnar hefur sést til hvala hér á Hvammsfirði.
Hvalir eru ekki algeng sjón í Hvammsfirði, en þó rak einn á land við Magnússkóga á gamlársdag 1934. Halldór Guðmundsson bóndi í Magnússkógum fann þar hvalinn fastan í íshrönn. Var hvalurinn um þrír og hálfur metri á lengd og um tveir í ummál. Ekki var vitað um hvaða hvalategund var að ræða.
En síðan er spurning um hvort ekki sé hér Hvammsfjarðarormurinn á ferð. Sagan segir að Unnur djúpúðga hafi verið að kemba hár sitt á Kambsnesi og lagt frá sem kambinn. Þegar hún ætlaði að taka hann aftur hafði brekkusnigill skriðið á hann, en náttúra þeirra er að þeir stækka er þeir komast á gull. Unnur varð hrædd og henti kambinum með sniglinum í sjóinn. Þar óx hann og varð að miklum ormi. Aðrir segja að ormurinn hafi myndast úr öskunni af Víga-Hrappi Sumarliðasyni, sem var fleygt í sjóinn. Stundum sjást þrír svartir blettir á Hvammsfirði og eru það kryppur á orminum.
Hvort sem um hvali eða orm er að ræða er bara að fara af stað með kíki og myndavél og horfa til sjávar. Ekki hafa náðst góðar myndir af hvölunum (orminum) og eru þær vel þegnar hér á Dalavefinn, netfangið er dalir@dalir.is. Nokkrar myndir hafa nú borist okkur og má skoða þær hér
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei