Íbúakynning á valkostagreiningu vegna sameiningar sveitarfélaga

DalabyggðFréttir

Fimmtudaginn 28. janúar kl.17:00 verður íbúakynning á valkostagreiningu vegna mögulegrar sameiningar Dalabyggðar við önnur sveitarfélög.

Sumarið 2020 var gengið til samninga við RR ráðgjöf um að vinna með Dalabyggð að greiningu valkosta fyrir sveitarfélagið vegna mögulegrar sameininga sveitarfélaga. RR ráðgjöf er ráðgjafafyrirtæki með sérþekkingu á stjórnsýslu, rekstri og málefnum sveitarfélaga. Róbert Ragnarsson hefur leitt greiningavinnuna og mun flytja kynninguna og stýra umræðum ásamt Freyju Sigurgeirsdóttur.

Á kynningunni verður farið yfir stöðu sveitarfélagsins Dalabyggðar, rætt hvort sveitarfélagið eigi að fara í sameiningarviðræður og lagt mat á hvaða sameiningarkostir sé séu til staðar.

Kynningunni verður streymt í beinni á YouTube-rás Dalabyggðar „Dalabyggð TV“. Þar verður hægt að senda inn spurningar, ábendingar og athugasemdir á meðan kynningunni stendur í gegnum spjall-glugga. Efnið sem kemur í gegnum spjall-gluggann verður tekið saman og notað við frekari vinnu og greiningu.

Einnig verða nokkur sæti í boði fyrir þá sem vilja mæta á kynninguna í eigin persónu.
Ef áhugi er fyrir því þarf að skrá sig með því að hafa samband við Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur á netfangið johanna@dalir.is eða í síma 430-4700.
Athugið að ekki verður hægt að mæta án skráningar og aðeins verður um nokkur sæti að ræða til að hægt sé að gæta að öllum sóttvörnum og fylgja gildandi takmörkunum. Grímuskylda er fyrir fundargesti sem munu mæta.

Við bendum íbúum á að upptaka frá kynningunni verður aðgengileg til mánudagsins 1. febrúar inni á Dalabyggð TV og þá verður einnig hægt að senda spurningar, ábendingar og athugasemdir á netfangið robert@rrradgjof.is merkt „Valkostagreining Dalabyggðar“.

Viðburður á Facebook

Streymi á YouTube

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei