Kammerkórinn Hymnodia

DalabyggðFréttir

Kammerkórinn Hymnodia frá Akureyri heldur tónleika í Dalabúð laugardaginn 13. september kl. 20. Kórstjóri er Eyþór Ingi Jónsson frá Miðgarði. Aðgangseyrir er 2.000 kr.
Kórinn syngur, spilar á alls kyns skrýtin og skemmtileg hljóðfæri, hefur uppi glens og grín, leikræn tilþrif og jafnvel dans ef vel liggur á.
Brjálaði barítóninn, drynjandi geðlæknirinn, fljúgandi Hollendingurinn, sænski grunnskólakennarinn, lagvissi lögfræðingurinn, tölvuóði trompetleikarinn og margir fleiri koma fram.

Meðal hljóðfæra sem kórinn notar eru gömul og beygluð bárujárnsplata tekin af gömlum útihúsum í Eyjafjarðarsveit, hertrompet sem fannst á götumarkaði í Frakklandi, strákústur Sveins kirkjuvarðar í Akureyrarkirkju, blómavasar, vínflöskur, þurrkuð ávaxtahýði frá Tyrklandi. Blásturshljóðfæri eins og sauðaleggjaflautur, piccolo, tinflauta, orgelpípur og ocarina. Strengjahljóðfærin psaltari, dulcimer, strumstick, charango, fiðla, gítar, bouzouki og rafbassi. Allskonar slagverkshljóðfæri og græjutaska kórstjórans.

Tónlistin er afar fjölbreytt, þjóðlög frá öllum heimshornum; skosk drykkjuvísa, mexíkóskur baráttusöngur, madrígal um kakkalakka, sænskur dansleikur, finnskur polki, enskt ástarljóð, rússneskt vögguljóð, kvöldsöngur fiska og margt fleira.

Kórinn flutti þessa efnisskrá á 9 tónleikum á NA-landi í október og nóvember 2013, m.a. tvisvar fyrir fullu húsi á Akureyri.

Kammerkórinn Hymnodia – fb

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei