Mörg eru ljónsins eyru

DalabyggðFréttir

Sögufélag Dalamanna í samvinnu við Lionsklúbb Búðardals heldur jólafund sinn miðvikudaginn 15. desember kl. 20 í Leifsbúð, Búðardal. Þar mun Þórunn Erlu Valdimarsdóttir kynna bók sína „Mörg eru ljónsins eyru„.
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir fæddist 25. ágúst 1954 í Hafnarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá MH árið 1973. Nam listasögu og myndlist við Instituto Allende í Mexíkó 1977-’78. Lauk BA-prófi í sögu og ensku frá HÍ 1979 og Cand Mag prófi í sagnfræði frá HÍ 1983. Þórunn var kennari við Héraðsskólann að Reykjum í Hrútafirði 1979 til 1980 og kenndi við MR 1984, en hefur síðan fengist við ritstörf.
Auk ýmissa bóka, ævisagna, ljóðabóka, glæpasagna og sögulegra skáldsagna hefur Þórunn ritað fjölda greina í innlend og erlend blöð og tímarit. Bókin Snorri á Húsafelli var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, skáldsögur hennar Alveg nóg og Stúlka með fingur voru tilnefndar til Menningarverðlauna DV og sú síðari hlaut verðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í Kalt er annars blóð 2007 var sóttur efniviður í Njálu en í Mörg eru ljónsins eyru er það Laxdæla.
Mörg eru ljónsins eyru fjallar um glæsikonuna og sjónvarpsþuluna Guðrúnu Óðinsdóttur, en hún hefur örlög margra í hendi sér. Mennirnir eru allnokkrir og elska hana allir. Hverjum er hún verst? Hvern elskar hún mest? Fuglinn í hendi eða hinn í skógi?
Þegar maður finnst með höfuðið sundurskotið þarf rannsóknarlögreglumaðurinn Leó að grafast fyrir um fortíð hins látna. Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir vefur á snilldarlegan hátt örlög persóna sinna í sögu þar sem afbrýðisemi og græðgi ráða för.
Á bókmenntavef Borgarbókasafnsins má kynna sér betur Þórunni og verk hennar.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei