Ólafsdalsfélagið býður upp á fjögur námskeið um m.a. lífrænt grænmeti, söl, þara, sushi, ostagerð, torf- og grjóthleðslur í Ólafsdal og Tjarnarlundi í ágúst og september.
Inn í námskeiðin er fléttað kynningum á hugmyndum Slowfoodhreyfingarinnar og starfsemi Bændaskólans í Ólafsdal. Á námskeiðunum nýtist lífræni matjurtagarðurinn í Ólafsdal, hráefni til ostagerðar úr nágrenninu, fjaran í Tjaldanesi og torf- og grjótgarðar sem hlaðnir voru á sínum tíma í Ólafsdal.
Grænmeti og góðmeti verður í Ólafsdal laugardaginn 6. ágúst kl. 13-16. Grænmeti tekið upp og smakkað. Kynning á Slowfood hreyfingunni og grænmetisrækt í Ólafsdal á tímum bændaskólans. Á sama tíma er dagskrá fyrir börnin um mat, grænmeti og jurtir. Leiðbeinendur Dominique Pledel, Sigríður Jörundsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir og Elsa Dorothea Gísladóttir.
Sölvafjara og sushi verður í Tjarnarlundi laugardaginn 20. ágúst kl. 15-18:30. Nýting sölva og þara á tímum Bændaskólans í Ólafsdal. Hugmyndafræði Slowfood-hreyfingarinnar. Gengið í sölvafjöru og safnað þangi, þara og sölvum. Sýnikennsla og kynning á hugmyndafræði og aðferðum Sushi. Á sama tíma er barnanámskeið í fjörunni um ströndina, þang og þara. Leiðbeinendur Rúnar Marvinsson og Dominique Pledel.
Ostagerð og slowfood í Tjarnarlundi laugardaginn 3. september kl. 11-17. Slowfood hreyfingin kynnt, markmið hennar og hugmyndafræði. Ostagerð á tímum Bændaskólans í Ólafsdal. Leiðbeint um ostagerð í heimahúsum og kynntar einfaldar framleiðsluaðferðir, tæki, tól og aðstaða, sem þarf fyrir einfalda ostagerð. Leiðbeinendur Eggert Antonsson og Jóhanna Þorvaldsdóttir.
Grjót- og torfhleðsla í Ólafsdal helgina 3.-4. september. Á tímum Bændaskólans í Ólafsdal voru hlaðnir umfangsmiklir grjótgarðar um tún, heimtröð og veggir útihúsa. Kynnt verður saga þessara hleðslna. Á námskeiðinu verður hlaðinn veggur úr torfi og grjóti, en jafnframt sýnd handtök við endurhleðslu og viðgerð á gömlum vegg. Leiðbeinandi Ari Jóhannesson og honum til aðstoðar Grétar Jónsson.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Ólafsdalsfélagsins.
Námskeiðin eru unnin í samvinnu við Vaxtarsamning Vesturlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Þörungaverksmiðjuna, Þjóðfræðistofu, Slowfood Reykjavík og Matur-saga-menning.