Norræni skjaladagurinn

DalabyggðFréttir

Í tilefni norræna skjaladagsins laugardaginn 12. nóvember er opið hús hjá Héraðsskjalasafni Dalasýslu kl. 13-18 á annarri hæð stjórnsýsluhússins. Þar verður lítil sýning tengd þema dagsins „Verslun og viðskipti“.
Á sameiginlegum vef skjaladagsinsmá finna fjölbreytt framlög héraðsskjalasafna og Þjóðskjalasafns tengd verslun og viðskiptum alls staðar af landinu. Einnig er hægt að lesa efni frá eldri skjaladögum.
Annað af framlögum Héraðsskjalasafns Dalasýslu á vef skjaladagsins er frásögn sem Hugrún á Fjósum skrifaði sérstaklega fyrir safnið í tilefni dagsins. Héraðsskjalasafn Dalasýslu varðveitir nefnilega fleira en gömul opinber skjöl. Skráðar frásagnir úr daglegu lífi eru ekki síður fróðlegar. Því auglýsir safnið eftir frásögnum tengdum verslun og viðskiptum Dalamanna. Gott er að hafa í huga að hugtakið verslun og viðskipti snýst um meira en beinan verslunarrekstur.
Ekki skiptir máli hvort frásögnin er gömul eða ný, né þarf heimildamaður að vera aldraður. Eina skilyrðið sem frásögnin þarf að uppfylla er að hún tengist verslun og viðskiptum í Dölum eða Dalamönnum.
Tekið er á móti frásögnum hvort þær eru handskrifaðar eða vélritaðar, en mikilvægt að gæta þess að þær séu merktar heimildarmanni. Hægt er að mæta með frásagnir í opið hús laugardaginn 12. nóvember eða senda í pósti, bréfleiðis (Héraðsskjalasafn Dalasýslu, Miðbraut 11, 370 Búðardalur) eða rafrænt (safnamal@dalir.is). En endilega taka þátt, þótt ekki séu nema nokkrar línur.
Eitt af markmiðum skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala af hvaða tagi sem er. Fundargerðabækur, bréf, myndir og fleiri skjöl eiga erindi á skjalasöfn. Hægt er að hafa samband við Héraðsskjalasafn Dalasýslu hafi menn undir höndum skjöl sem þeir vita ekki hvað á að gera við.
Dalamenn og nágrannar eru því velkomnir á laugardaginn. Hægt er að skoða sýninguna, fræðast um starfsemi héraðsskjalasafnsins, afhenda gögn eða frásagnir eða bara til að sýna sig og sjá aðra.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei