Ný búgrein í Dalabyggð

DalabyggðFréttir

Í gær, þriðjudaginn 11. apríl undirrituðu bændur á Miðskógi í Dölum og Reykjagarður hf. samstarfssamning um uppbyggingu kjúklingaeldis í Dalabyggð.

Markmiðið er að auka fjölbreytni í atvinnulífi Dalanna til framtíðar og styðja við þann öfluga landbúnað sem þegar er stundaður á svæðinu. Fyrst um sinn munu bændur byggja eldishús fyrir u.þ.b. 13.000 kjúklinga og mun Reykjagarður leigja af þeim húsið og kaupa þjónustu við
eldið. Gert er ráð fyrir að ársframleiðslan geti numið allt að 180 tonnum og að starfsemi hefjist í lok þessa árs.

Fyrir reka hjónin á Miðskógi þau Skúli Hreinn Guðbjörnsson og Guðrún Esther Jónsdóttir öflugt kúabú með um 60 mjólkurkúm ásamt nautaeldi . Skúli segir kjúklingaeldið henta vel með öðrum búskap og byggjast á sömu grundvallarlögmálum til að ná árangri. „Jafnframt gerir þetta okkur bændum auðveldara um vik að fá dóttir okkar og tengdason inn í reksturinn, en stefnt er að því að þau Sunneva Hlín Skúladóttir og Jóhannes Örn Pálmason flytji að Miðskógi í byrjun maí nk. ásamt börnum sínum þremur.“ segir Skúli.

Sveitarstjóri Dalabyggðar, Björn Bjarki Þorsteinsson, sagði við undirritun samningsins að það væri fagnaðarefni að fá aukna fjölbreytni í atvinnu- og landbúnaðarflóruna í Dalabyggð.

Í tilefni undirskriftarinnar afhenti Reykjagarður hf. Þeim Jasmín, Kristínu, Benóní og Baldri fulltrúum ferðasjóðs nemenda við Auðarskóla framlag í ferðasjóðinn. Vill fyrirtækið með því leggja rækt við nærumhverfið í Dölum.

Reykjagarður hf. er dótturfélag Sláturfélags Suðurlands og felst starsemin í eldi, slátrun og úrvinnslu á kjúklingi. „Við höfum í gegnum tíðina átt farsælt samstarf við bændur á Suðurlandi, Suðurnesjum, í Borgarfirði og Hrútafirði. Því fögnum við samstarfi við bændur á Miðskógi.“ segir Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs. Þekktasta vörumerki félagsins er Holta, en einnig markaðssetur félagið ferskar kjúklingaafurðir undir merkinu Kjörfugl og fulleldaðar kjúklingaafurðir undir merkinu Heimshorn Holta.

Dalabyggð óskar núverandi og tilvonandi bændum í Miðskógi sem og Reykjagarði hf. til hamingju með þennan ánægjulega áfanga.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei