Nýtt fyrirkomulag í sorphirðu

DalabyggðFréttir

Nú stendur yfir útboð á sorphirðu í Dalabyggð. Í útboðinu felst meðal annars að á næsta ári verður tekið upp nýtt sorphirðukerfi í Dalabyggð, svokallað þriggja tunnu kerfi sem á að tryggja skilvirkari flokkun.

Í þéttbýli munu verða settar upp tvær sorptunnur til viðbótar þeim sem fyrir eru.  Í dreifbýli verða settar upp þrjár tunnur við hvert heimili og lögbýli. Þannig verða öll heimili í sveitarfélaginu með þrjár sorptunnur; grátunnu, græntunnu og brúntunnu.

Íbúar munu bera ábyrgð á að tunnur verði aðgengilegar og tryggilega festar. Það er því gott að huga að hvar og hvernig best er að koma tunnunum þremur fyrir.

Grátunnan er fyrir óflokkaðan blandaðan heimilisúrgang, græntunnan er fyrir flokkaðan og endurvinnanlegan úrgang sem fellur til innan heimilis og brúntunnan er fyrir allan lífrænan úrgang.

Allar tunnurnar verða tæmdar á fjögurra vikna fresti. Auk þess verða brúntunnur tæmdar fjórum sinnum aukalega yfir sumartímann.

Árlegt dagatal fyrir sorphirðu í sveitarfélaginu verður gefið út.

Í dreifbýli verður einnig komið upp tunnustöðvum/grenndargámum á sumrin sem þjóna sumarbústöðum og heimilum í grenndinni.

Heyrúlluplasti verður áfram safnað reglulega á þeim lögbýlum sem þess óska.

Ítarleg kynning mun fara fram þegar nær dregur.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei