Ormahreinsun hunda og katta

DalabyggðFréttir

Í haust hefur komið fram vöðvasullur í sauðfé. Um er að ræða aukna tíðni og gæti ástæðan verið misbrestur á bandormahreinsun hunda. Vöðvasullur er ekki hættulegur fyrir fólk en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og hugsanlega óþægindum fyrir féð.
Vöðvasullur greindist fyrst hér á landi í lömbum árið 1983 og á árunum fram til 1990 sást töluvert af honum en síðan hafa aðeins fundist stök tilfelli. Nú hafa aftur á móti greinst fleiri tilfelli en vant er. Ástæður aukinnar tíðni gætu verið að misbrestur hafi orðið á bandormahreinsun hunda eða að bandormurinn geti leynst í refum.
Annar og verri bandormur, sullveikibandormurinn hefur ekki greinst í sauðfé hér á landi síðan árið 1979 og ormahreinsun hunda vegna hans hefur verið lögboðin í áratugi og mikilvægt fyrir hundeigendur að virða skyldur sínar. Þetta á við um alla hunda, hvort sem er í sveit eða þéttbýli.
Smitið viðhelst fyrir lífstíð í sýktu fé og því er mikilvægt að sjá til þess að hundar komist ekki í eða séu fóðraðir á hráu kjöti. Þá getur og skipt hér máli að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.

Ormahreinsun hunda

Hér með tilkynnist að árleg hundahreinsun fer fram hjá Gísla Sverri Halldórssyni dýralæki að Ægisbraut 19 í Búðardal miðvikudaginn 7. desember 2016 milli kl. 16:00 og 18:00.
Eiganda eða umráðamanni hunds er skylt að láta ormahreinsa hund sinn árlega. Tilgangur hreinsunarinnar er að fyrirbyggja sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum. [57. gr. reglugerðar nr. 941/2002]
Skv. gjaldskrá Dalabyggðar fyrir hundahald er hundahreinsun og ábyrgðartrygging innifalin í árlegu gjaldi sem hefur þegar verið innheimt af eigendum skráðra hunda.
Eigendur óskráðra hunda eru vinsamlega beðnir um að skrá hunda sína hið fyrsta á skrifstofu Dalabyggðar. Einnig má skila útfylltu skráningarblaði hjá dýralækni samhliða hundahreinsun og mun þá Dalabyggð greiða hreinsunina og kaupa ábyrgðartryggingu fyrir hundinn.
Hundahreinsun í dreifbýli fer fram samhliða garnaveikibólusetningu sauðfjár og öðrum ferðum dýralæknis. Hundaeigendur í dreifbýli sem ekki eiga sauðfé eru beðnir um láta dýrarlækni vita af þeim hundum svo hægt verði að meðhöndla þá í sömu ferð.

Ormahreinsun katta

Eiganda eða umráðamanni kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun hans. Skylt er að ormahreinsa alla ketti fjögurra mánaða og eldri.
Eigandi eða umráðamaður kattar geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því við eftirlitsaðila ef óskað er. [58. gr. reglugerðar nr. 941/2002]
Dalabyggð hefur ekki sett samþykkt um kattahald.
Eigendum katta er bent á að hafa samband við Gísla dýralækni varðandi ormahreinsun.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei