Samkomubann framlengt til 4.maí

DalabyggðFréttir

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja þær takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem áttu að falla úr gildi 13. apríl næstkomandi fram til 4. maí. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.

Þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt.

Ljóst er að frekari aukning á smiti í samfélaginu með fjölgun alvarlega veikra, getur skapað mikinn vanda innan heilbrigðiskerfisins og torveldað því að gegna hlutverki sínu eins og þörf krefur. Framlenging samkomubanns er liður í því að sporna gegn slíkri framvindu.

Engar aðrar breytingar verða á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi en framlengdur gildistími sem líkt og fyrr segir, er til 4. maí. Á tímabilinu verður undirbúin áætlun um hvernig best megi standa að því að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum. Stefnt er að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Undanþágur sem veittar hafa verið frá takmörkunum á samkomum og skólahaldi munu halda gildi sínu sem nemur framlengingu aðgerða, þ.e. til 4. maí næstkomandi.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei