Frá sveitarstjóra

DalabyggðFréttir

Kæru Dalamenn.

Þetta eru undarlegir tímar sem við upplifum núna. Nú er tíminn til að hlúa sérstaklega að hvert öðru og reyna að halda í gleðina og bjartsýnina á meðan við verðum að aðlaga okkur að þessum aðstæðum.

Það hefur verið stefna Dalabyggðar frá því að fyrstu fyrirmæli komu vegna COVID-19 að reyna að halda íbúum eins upplýstum og hægt er og miðla áfram öllum tilmælum og reglum. Nýverið var sett upp sérstök upplýsingasíða á forsíðu www.dalir.is til að halda utan um upplýsingar á einum stað og auðvelda þannig íbúum að finna hvað eigi við hverju sinni.

Það eru vissulega nýjar áskoranir en ekki síður nýjar lausnir sem mæta okkur. Við þurfum að vera tilbúin að takast á við síbreytilegt ástand og til þess höfum við viðbragðsáætlanir.

Skrifstofa Dalabyggðar og störf sveitarstjórnar hafa haldið áfram með því að nýta tæknina en einnig með því að gæta ítrustu varúðar við afgreiðslu erinda. Við erum þakklát íbúum fyrir þolinmæðina og aðstoðina við að láta þetta fyrirkomulag ganga upp.

Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar föstudaginn 27. mars:

Dalabyggð vill þakka öllu starfsfólki grunn- og leikskóla, Silfurtúns, öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum viðbragðsaðilum ásamt fólki sem sinnir þjónustu í framlínu eins og verslun fyrir framlag sitt í því ástandi sem nú ríkir.

Skólastarf Auðarskóla hefur tekið miklum breytingum, allir nemendur nema í 1. til 4. bekk eru núna í heimakennslu sem  gengur eftir atvikum með ágætum. Leikskólinn er opinn fyrir börn foreldra á forgangslista almannavarna með þeim viðbótum sem samþykktar voru í sveitarstjórn 27. mars. Það er mikilvægt að við tölum af skynsemi um ástandið í návist barna og reynum að lágmarka spennu og áhyggjur í kringum þau. Reynum frekar að halda daglegri rútínu eftir fremsta megni og finnum afþreyingu við allra hæfi þess á milli.

Dalamenn hafa verið duglegir við að finna sér eitt og annað til skemmtunar í samkomubanni. Það setur skemmtilegan svip á bæinn að sjá glugga fulla af böngsum og hve duglegir íbúar eru að hreyfa sig úti við. Þá gæti verið gaman að draga upp spilastokk eða taflborð, fletta í gegnum gömul myndaalbúm eða skella í köku eftir uppskriftinni hennar ömmu til að dreifa huganum.

Einnig er ánægjulegt hvernig fyrirtæki á svæðinu hafa brugðist við m.a. með sérstökum opnunartíma fyrir viðkvæma einstaklinga og aukinni rafrænni þjónustu til að koma til móts við viðskiptavini.

Til að koma sem best frá þessu ástandi skulum við sammælast um að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið að feta, þar berum við öll ábyrgð. Virðum reglur um sóttkví og samkomubannið, reynum að takmarka óþarfa samneyti, höldum tveggja metra fjarlægðinni og gætum að handþvotti í minnst 20 sekúndur og smitleiðum. Við erum öll almannavarnir.

Verum dugleg að nota símann og vefsamskipti, heyrum í fólkinu okkar, gömlum vinum og kunningjum. Notum tímann sem nú gefst til að huga að andlegri og líkamlegri líðan okkar og hvetjum fólkið í kringum okkur til að gera slíkt hið sama.

Ég er stoltur af samfélaginu okkar, hvernig íbúar Dalabyggðar hafa tekið á stöðunni með þolinmæði og verið úrræðagóðir og skynsamir á þessum tímum.

Sameinumst um að virða reglur og benda á ef einhverjir hugsanlega gleyma sér. Saman komumst við í gegnum þetta, tökum einn dag í einu.

Með góðum kveðjum,
Kristján Sturluson, sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei