Sauðamessa 2008

DalabyggðFréttir

Lánsfé, rekstrarörðugleikar og hlutafjármarkaður á Sauðamessu 2008 í Borgarnesi á laugardag

 


 

Sauðamessa 2008 hefst laugardaginn 4. oktober kl. 13.30 að staðartíma með fjárrekstri eftir aðalgötunni í Borgarnesi. Að sjálfsögðu verður eingöngu lánsfé í rekstrinum, (fengið að láni frá góðbændum í héraði) og fastlega er búist við rekstrarörðugleikum. Því taka messuhaldarar fagnandi öllum sem lopavettlingi geta valdið og vilja koma í fyrirstöðu en annars er það engin fyrirstaða fyrir féð að hverfa út í buskann eins og algengt er með fé á Íslandi þessa dagana. Vegna þess hefur reyndar verið ákveðið að fá viðbótarfjármagn og því verða kindurnar fleiri en nokkru sinni fyrr.
Féð verður rekið inn í fjárþröng (rétt) við Skallagrímsgarð og dagskrá á sviði hefst þar kl. 14.00 – Á sviðinu skemmta m.a. Björgvin Frans, Danshópurinn Sporið, Jóhann Sigurðarson og Þorsteinn Gauti, Freyjukórinn, ungi víkingurinn Þórður Brynjarsson, Hvanndalsbræður ofl. Kynnir er Sveinbjörn Eyjólfsson.
Ert þú í O flokki eða 1. flokki +??
Ýmis önnur afþreying verður í boði, s.s. sætaferðir á heyvagni, íslandsmótið í vettlingatökum, sparðatýningur, smalahundasýning, átkeppni, leitin að nál í heystakki, hestaferðir ofl.
Sauðamarkaður verður í Skallagrímsgarði en þar verða bændur og búalið, handverksfólk og fleiri með afurðir sínar og varning til sölu. Þá ætlar Landbúnaðarháskóli Íslands að bjóða upp á ókeypis kjötflokkun og fitumælingar fyrir fólk. Einnig má nefna að nú verður í fyrsta sinn krýndur Sauður ársins og Ær ingi ársins en það eru æðstu metorð Sauðamessunnar.
Hlöðuball
Sauðamessu 2008 líkur með hrikalegu hlöðuballi í nýju reiðhöllinni í hesthúsahverfinu ofan við Borgarnes. Hljómsveitin Upplyfting leikur fyrir dansi af öllum lífs og sálar kröftum frá kl. 22.00 – 02.00. Aldurstakmark er 16 ár og miðaverð 2000 kr. – SNYRTILEGUR KLÆÐNAÐUR ER BANNAÐUR!
Athugið að boðið er upp á ókeypis sætaferðir úr Borgarnesi á ballið með Sæmundi.
Kærkomið tækifæri til að sletta ærlega úr klaufunum!!!!
Þess ber að geta að Jón bóndi Eyjólfsson, á Kópareykjum (þ.e. Jón á Kópa) hefur verið skipaður fjölmiðlafulltrúi Sauðamessu sem felur í sér að hann tekur að sér fínni viðtöl í vandaðri fjölmiðlum. Síminn hjá honum er tvær langar og ein stutt eða 893-6538.
Aðar upplýsingar gefur Gísli í síma 899 – 4098.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei