Skólastefna Dalabyggðar

DalabyggðFréttir

Drög að skólastefnu Dalabyggðar eru auglýst til umsagnar. Þau eru unnin af fræðslunefnd ásamt áheyrnarfulltrúum foreldra og starfsmanna, auk skólastjóra síðastliðinn vetur.
Tímafrestur til að skila athugasemdum er til 30. október 2014 og skal komið til skrifstofu Dalabyggðar, Miðbraut 11 í Búðardal eða á netfangið dalir @dalir.is.

Drög að skólastefnu Dalabyggðar

Sveitarfélagið Dalabyggð hefur valið hugtakið ræktun sem einkunnarorð og leiðarljós.
Ræktun er því þungamiðja skólastefnunnar þar sem áhersla er lögð á að hlú að og leggja rækt við skólastarf í sveitafélaginu. Hafa ber velferð og þroska nemenda á öllum aldri í fyrirrúmi þar sem hugað er sérstaklega að því að mæta þörfum nemenda og ýta undir hæfileika þeirra.
Í sveitarfélaginu Dalabyggð skal vera metnaðarfullt framsækið skólastarf þar sem nemendum líður vel. Búa skal þeim öruggt umhverfi og bestu aðstæður til náms. Samfélagið allt leggur hönd á plóg til þess að skólastarf blómstri og beri ríkulegan ávöxt.

Stefna Dalabyggðar í skólamálum er:

1. að tryggja samstöðu, samábyrgð og sátt um skólastarf í sveitafélaginu.
2. að faglega sé unnið að skólamálum í sveitarfélaginu.
3.
að gætt sé jafnræðis þannig að allir nemendur geti náð sem bestum árangri óháð búsetu, kyni, fötlun fjárhag eða annarri sérstöðu.
4.
að bjóða upp á góða aðstöðu til náms þar sem hugað er að öryggi og aðstöðu til náms í fjölbreyttum námsgreinum.
5. að gera skólastarfið sýnilegt og tengja það samfélaginu.

1. Að tryggja samstöðu, samábyrgð og sátt um skólastarf í sveitafélaginu.

Með því að
– hlúa að skólasamfélaginu þannig að það geti verið hornsteinn menntunar svo nemendur geti síðar horft með gleði og stolti til þess að hafa verið nemendur í Dalabyggð.
– stuðla að jákvæðri umfjöllun um skólana í sveitafélaginu.
– því að rækta tengsl nærsamfélagins við skólana og stuðla að jákvæðum samskiptum á milli allra aðila sem mótist af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.
– efla tengsl á milli heimila og skóla með að því tengja skólana við viðburði í Dalabyggð.
– stuðla að virku foreldrastarfi við skólana.
– efla samstarf skólanna við skóla utan Dalabyggðar.

2. Að faglega sé unnið að skólastarfi í sveitarfélaginu.

Með því að:
– tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár sem í gildi er hverju sinni.
– skapa aðstæður til þess að hægt sé að ráða fagmenntað starfsfólk við skólana.
– tryggja nemendum og starfsmönnum sem bestu náms- og starfsaðstöðu hverju sinni.
– stuðla að endurmenntun starfsfólks þannig að hægt verði að auðga skólastarfið með fjölbreyttum kennsluháttum.
– auðvelda aðgengi að fagmenntuðum ráðgjöfum svo hægt sé að mæta fjölbreytilegum þörfum nemenda á öllum skólastigum þannig að möguleikar þeirra til náms nýtist sem best.
– búa list- og verkgreinum viðunandi aðstæður til jafns við annað skólastarf.
– mat á skólastarfinu verði ríkur og eðlilegur þáttur í skólastarfinu því til framfara.

3. Að gætt sé jafnræðis þannig að allir nemendur geti náð bestum árangri óháð búsetu, kyni, fötlun, fjárhag eða annarri sérstöðu.

Með því að fylgja því eftir að:
– jafnréttisáætlun Dalabyggðar sé í heiðri höfð í skólastarfinu hvað varðar kennslu og námsgögn.
– stefnan -„Skóli án aðgreiningar“ – sé í heiðri höfð.
– nemendur fái námstilboð miðað við getu og hæfileika hvers og eins.
– markmið séu skýr og viðfangsefni hvetjandi og skemmtileg.
– hugað sé sérstaklega að félagslegum aðstæðum nýbúa og nemenda með þroskafrávik.
– lýðræðisleg vinnubrögð einkenni allt skólastarf og nemendur hafa möguleika á að hafi áhrif á námsframvindu sína.
– stuðlað sé að virku nemendalýðræði sem styðji við félagsstarf nemenda og efli þá til félagslegrar ábyrgðar.
– skólar hafi ávallt aðgang að sérfræðingum, svo sem námsrágjöfum eða öðrum sem styrkt geta nemendur og skólastarfið.
– þverfaglega sé unnið að forvörnum í sveitarfélaginu Dalabyggð með þátttöku skólanna og foreldrum nemenda.

4. Að bjóða upp á góða aðstöðu til náms þar sem hugað er að öryggi og aðstöðu til náms í fjölbreyttum námsgreinum.

Með því að:
– viðhaldi, umgengni og endurnýjun húsnæðis og lóðar sé ávallt vel sinnt.
– ljúka við uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Búðardal.
– viðhaldi og endurnýjun búnaðar svo sem húsgagna, raftækja og tölvubúnaðar sé vel sinnt.
– gönguleiðir og aðkoma að skóla taki mið af öryggi nemenda.
– umferðaröryggi sé tryggt við skóla.
– eftirlit og úttekt á leiktækjum og aðstöðu fari fram í samræmi við lög og reglur.
– bjóða starfsfólki skólanna reglulega uppá skyndihjálparnámskeið.
– vinna við viðhald skólalóðar og húsnæðis fari fram utan skólatíma.
– við skipulag skólaaksturs sé velferð nemenda og öryggi ávallt haft að leiðarljósi og vera nemenda í bílunum sé svo stutt sem kostur er.

5. Að gera skólastarfið sýnilegt og tengja það samfélaginu.

Með því að:
– nýta þá miðla sem sveitarfélagið Dalabyggð hefur til að færa fréttir af skólastarfinu
– tengja heimasíðu skólanna við aðrar heimasíður í sveitarfélaginu og hafa skólanámskrá og kennsluáætlanir sýnilegar ásamt niðurstöðum innra og ytra mats
– stuðlað sé að virkum tengslum nemenda við atvinnu-, lista- og menningarlíf sveitafélagsins.
– standa vel að upplýsingatækni skólanna.
– efla tengsl skólanna við sögu og menningu Dalanna.
– tengja skólana við nærsamfélagið og stuðla að jákvæðum samskiptum.
– gefa út og upplýsingabækling um skólana sem einnig getur legið á heimasíðu Dalabyggðar.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei