Söfnunarlok sjúkraflutningaaðila

DalabyggðFréttir

Sjúkraflutningamenn í Dalabyggð vilja koma á framfæri þakklæti fyrir afar góðar undirtektir við söfnun fyrir sjálfvirku hjartahnoðtæki (Lúkas) í sjúkrabifreiðina. Söfnuninni er nú lokið og af því tilefni er íbúum Dalabyggðar boðið í Leifsbúð laugardaginn 10. maí kl. 16-18.
Hjartahnoðtæki af þessari gerð hefur hlotið nafnið Lúkas, er þar vísað til að notkun þess jafngildir viðbótarmanni við endurlífgun. Tækið sér algjörlega um hjartahnoð án þess að þreytast eða vera fyrir öðrum við endurlífgunina. Það kemur að góðum notum í héraði sem þessu þar sem flutningsleiðir eru oft langar. Þá verður einnig hægt að nýta það á heilsugæslustöðinni ef hjartastopp verður þar.
Á laugardaginn munu sjúkraflutningamenn sýna sjúkraflutningabifreiðina ásamt tækjum og tólum. Þar með er talið hjartahnoðtækið sem nú er komið í bifreiðina, þökk sé snöggum viðbrögðum heimamanna. Á svæðinu verða einnig aðrir viðbragðsaðilar í héraðinu; Björgunarsveitin Ósk, Slökkvilið Dalabyggðar og Lögreglan í Borgarfirði og Dölum. Kaffisopi verður og í boði.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei