Sögurölt í Ólafsdal

DalabyggðFréttir

Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum ákváðu í vetur að leggja saman krafta sína og skipuleggja sameiginlega göngur í sumar. Í fyrrasumar var boðið upp á fjölbreyttar göngur hjá báðum söfnunum, en í sumar er stefnan sett á styttri göngur og meiri sögur, þ.e. sögurölt um Dali og Strandir.

Fyrsta söguröltið verður í samstarfi við Fornleifastofnun Íslands og Ólafsdalsfélagið mánudaginn 25. júní kl. 19:30 að fornleifauppgreftri í Ólafsdal. Í fyrra fundust rústir af skála frá 9.-10. öld framarlega í Ólafsdal. Fornleifauppgröftur hófst þar um miðjan júní og nú þegar er komið ýmislegt í ljós.

Gangan hefst á hlaðinu í Ólafsdal og er rétt um kílómeter hvora leið. Gengið  verður undir leiðsögn Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings. Staldrað verður við á áhugaverðum stöðum á leiðinni að rústum skálans. Við skálarústirnar verður sagt frá byggingunni, vinnubrögðum við fornleifarannsóknir og nálægar rústir skoðaðar. Á bakaleiðinni er hægt að ganga hvort sem er sömu leið til baka (15-20 mínútur) eða fara niður með ánni sem er örlítið lengra.

Er hér um gott tækifæri að sjá fornleifar á heimavelli, hvort sem menn eru Dalamenn, Strandamenn eða Austur-Barðstrendingar. Allir eru velkomnir í þetta rölt með okkur, aðgangseyrir er að mæta í góðu skapi.

Gott er að hafa í huga að vegurinn um Holtahlíð er ekki hraðbraut, auk þess sem þar eru ær og lömb meðfram veginum. Keyrið því varlega.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei