Sóum minna – nýtum meira

DalabyggðFréttir

Ráðstefna um lífrænan úrgang verður haldin 20. mars kl. 10-17 í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Þar verður fjallað á margvíslegan hátt um þá möguleika sem felast í nýtingu lífræns úrgangs, meðal annars til skógræktar og landgræðslu. Í hádegishléi verður í boði léttur málsverður.
Viðfangsefni ráðstefnunnar er nýting þeirra verðmæta sem felast í lífrænum úrgangi. Fjallað verður um hugtökin úrgang og hráefni og farið yfir stöðuna hérlendis, hvaða farvegir eru fyrir lífrænan úrgang og um lausnir sem notaðar eru á ýmsum stöðum á landinu.
Rætt verður um lög og reglugerðir í nútíð og framtíð, þróun vinnslutækni og nýtingar, stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum og hver skuli draga vagninn í þessum efnum.
Sagðar verða reynslusögur af ræktun með hjálp lífræns úrgangs, lífrænni ræktun í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, notkun kjötmjöls í Hekluskógum og landgræðslu með kjötmjöli og gor.
Fyrirlesarar eru úr ýmsum áttum. Nefna má Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing hjá Environice, sem svarar spurningunni um hvers vegna sveitarfélag ætti að velta lífrænum úrgangi fyrir sér, Björn Hafsteinn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir frá nýrri gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu, Teitur Guðmundsson hjá Mannviti fjallar um umhverfisáhrif nýtingar, Elsa Ingjaldsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og Guðrún Lind Rúnarsdóttir hjá Mast fjalla um hvað má og má ekki. Einnig ávarpar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra ráðstefnuna. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, verður ráðstefnustjóri.
Aðstandendur ráðstefnunnar eru Sorpurðun Vesturlands, Molta ehf. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ásamt Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei