Stóri Plokkdagurinn 2022

DalabyggðFréttir

Sunnudaginn 24. apríl næstkomandi er Stóri plokkdagurinn sem haldinn er af hópnum Plokk á Íslandi.

Rúmlega sjöþúsund og fjögurhundruð manns tilheyra samfélaginu Plokk á Íslandi á Facebook og þessi hópur er kominn á fullt í að plokka í sínu umhverfi.
Að sögn plokkara felst fegurðin í plokkinu einna helst í því hversu einfalt það er og hversu auðvelt er að taka þátt. Því fylgir góð og heilbrigð hreyfing, útivera og félagskapur.

Plokk á Íslandi er hópur einstaklinga sem bera virðingu fyrir umhverfinu og hafa það sem áhugamál að fara um illa hirt svæði og þrífa þar upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða þungaflutningum innan marka sveitarfélaga, á girðingum og í skurðum á víðavangi.

Góð plokk ráð: 

  1. Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskyldu sem og aðra til að vera með
  2. Útvega sér ruslapoka og hanska – plokktöng er ekki verri.
  3. Klæða sig eftir aðstæðum og veðri.
  4. Koma afrakstrinum á endurvinnslustöð eða í öruggar tunnur eða gáma.
  5. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til lögreglu svo mögulegt sé að fjarlægja þá.
  6. Muna að allt plokk skiptir máli. Hvort sem þú tekur bara einn plastpoka sem fýkur um eða fyllir ílát af rusli, þá ertu að gera gera gagn og það skiptir máli.

Við hvetjum íbúa Dalabyggðar til að taka þátt og plokka í sínu nærumhverfi á sunnudaginn kemur.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei