Sumardvöl og barnalán

DalabyggðFréttir

Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir Blessað barnalán á föstudagskvöld og ný sýning Sumardvöl í sveit verður opnuð á Sauðfjársetrinu á sunnudaginn. Því næg tilefni til að sækja Strandamenn heim um helgina.

Blessað barnalán

Leikritið Blessað barnalán verður frumsýnt í félagsheimilinu á Hólmavík á föstudagskvöldið kl. 20 og einnig eru sýningar á sunnudags- og þriðjudagskvöld.
Leikfélag Hólmavíkur setur verkið upp, en Blessað barnalán er gamanleikur í fjórum þáttum sem Kjartan Ragnarsson samdi árið 1977. Stykkið hefur áður verið sett upp á Hólmavík árið 1983.
Nauðsynlegt er að panta miða á uppsetninguna að þessu sinni, því takmarkað framboð er á sætum. Leikstjóri að þessari uppfærslu er Guðbjörg Ása Jóns- og Huldudóttir og svarar hún í miðasölusímann 659-5135.
Frumsýning er föstudaginn 4. nóvember kl. 20, önnur sýning sunnudaginn 6. nóvember kl. 20 og þriðja sýning þriðjudaginn 8. nóvember kl. 20.
Miðaverð eru 3.000 kr. fyrir fullorðna og 1.500 kr. fyrir börn 14 ára og yngri. Posi verður á staðnum.
Sumardvöl í sveit
Sýningaropnun og vöfflukaffi verður á boðstólum í Sauðfjársetrinu í Sævangi sunnudaginn 6. nóvember kl. 15.
Sýningin Sumardvöl í sveit segir frá reynslu þeirra sem fóru í sveit og þeirra sem tóku á móti sumardvalarbörnum, einkum á Ströndum.
Hægt er að heimsækja sveitaheimili, fara í leiki, endurupplifa ferðalag í sveitina, hlusta á sögur af Ströndum og fræðast um siðinn. Aðstandendur sýningarinnar, Strandakonurnar Esther Ösp, Dagrún Ósk og Sunneva Guðrún segja stuttlega frá sýningunni sem er hönnuð til að höfða til allra aldurshópa og leiðsögn um sýninguna. Íris Björg verður með tónlistaratriði.
Viðburðurinn er hugsaður fyrir alla fjölskylduna og eru öll sem áhuga hafa hjartanlega velkomin. Fleiri viðburðir tengdir sýningunni verða á dagskrá í vetur.
Vöffluhlaðborð Sauðfjársetursins í tilefni dagsins kostar 1.200 kr. fyrir fullorðna og 600 kr. fyrir 6-12 ára börn.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei