Syngjandi konur á Vesturlandi

DalabyggðFréttir

Öllum syngjandi konum á Vesturlandi er velkomið að taka þátt í vinnuhelgi með Kristjönu Stefánsdóttur, djasssöngkonu helgina 3.-4. mars í Hjálmkletti í Borgarnesi.
Markmiðin eru að efla söng og þjálfun meðal kvenna á Vesturlandi, hvetja ungar konur til að ganga til liðs við kóra,kalla til samstarfs konur víðsvegar að úr landshlutanum, gefa konum sem syngja í blönduðum kórum kost á að æfa og syngja með kvennakór, sýna afrakstur starfsins með tónleikahaldi og kynna þannig það öfluga kórastarf sem fram fer á Vesturlandi
Á dagskránni eru söngæfingar, hátíðarkvöldverður og tónleikar í Hjálmkletti í lokin. Að vinnuhelginni lokinni er ætlunin að halda tónleika á Akranesi, í Reykjavík, á Snæfellsnesi og mögulega aðra í Borgarfirði.Þátttaka í tónleikunum er valfrjáls.
Ætlunin er að „Syngjandi konur á Vesturlandi“ verði samstarfsvettvangur fyrir konur á Vesturlandi sem njóta þess að syngja.
Undirbúningur, skipulag og stjórn verkefnisins er í höndum Freyjukórs. Fjármögnun er í gegnum þátttökugjöld og styrki. Menningarráð Vesturlands styrkir verkefnið.
Þátttökugjald er 10.000 kr, hádegismatur og síðdegishressing í tvo daga 2.000 kr og hátíðarkvöldverður (valfrjáls) 4.000 kr.
Þær konur sem vilja gista á staðnum hafa sjálfar samband við gististaði og panta gistingu.Upplýsingar um gististaði í Borgarnesi og nágrenni má finna á heimasíðu Markaðsstofu Vesturlands, Vesturland.is.
Skráning fer fram í gegnum vefslóðina www.vefurinn.is/freyjur fyrir 13. febrúar 2012.Fylla þarf út allar upplýsingar: Nafn, kennitala, nafn á kór (ef það á við), þátttaka í hátíðarkvöldverði og þátttaka í hádegisverðum og kaffi. Þátttakendur skrá sig með bindandi staðfestingargjaldi 4.000 kr.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei