Myndina af hópnum tók Ása María Hauksdóttir.

Þín allra bestu jól – nýtt jólalag Braga Valdimars Skúlasonar tileinkað Dölunum

DalabyggðFréttir

Það eru svo sannarlega menningarjól í Dalabyggð þetta árið, tónleikar, bókakynningar, spilakvöld og fleira sem gleðja unga sem eldri.

Á sunnudaginn síðastliðinn var haldin aðventuhátíð í Dalabyggð. Þar tóku höndum saman Kirkjukór Dalaprestakalls ásamt Sönghópnum Hljómbroti og sungu nokkur vel valin jólalög. Sr. Snævar Jón Andrjesson las jólasögur á milli söngatriða. Um 100 manns sóttu viðburðinn sem haldinn var í félagsheimilinu Dalabúð.

Kórarnir frumfluttu nýtt lag en það heitir Þín allra bestu jól og eru bæði lagið og textinn samin af Braga Valdimar Skúlasyni. Kórstjóri Hljómbrots, hún Sigurbjörg I. Kristínardóttir hafði samband við Braga Valdimar fyrr á þessu ári til að kanna hvort hann væri til í að semja lag fyrir Sönghópinn Hljómbrot, sem stofnaður var í Dölunum fyrr á árinu. Úr varð þetta fallega lag þar sem sungið er um friðsæla dali, fjarlæga dali og dalina fögru. Gunnar Gunnarsson útsetti lagið fyrir kórinn.

Lagið hefur nú verið tekið upp þar sem söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir syngur það. Hægt  er að hlusta á lagið á streymisveitunni Spotify en upptaka með Katrínu Halldóru verður einnig sýnd í sjónvarpi landsmanna á jólunum.

Lagið Þín allra bestu jól í flutningi söngkonunnar Katrínu Halldóru má nú heyra á streymisveitunni Spotify en glöggir sjá að á fallegri kápumynd lagsins kúrir kisi í Sælingsdal.

Á hópmyndinni hér að ofan sjást kirkjukór Dalaprestakalls og Sönghópurinn Hljómbrot, ásamt kórstjóranum Sigurbjörgu I. Kristínardóttur og meðleikurum. Meðleikarar á tónleikunum voru Sigrún Hanna Sigurðardóttir sem spilaði á þverflautu og Kristján Ingi Arnarsson sem spilaði á hljómborð. 

Myndina af hópnum tók Ása María Hauksdóttir.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei