Þjóðlendukröfur á Breiðafirði

SafnamálFréttir

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 hafa verið birtar. Svæðið tekur til landsvæða utan strandlengju meginlandsins og innan landhelginnar.  Gildir það um allar eyjar, sker og aðrar landfræðilegar einingar ofansjávar á stórstraumsfjöru.

Kröfugerðina fyrir Breiðafjörð má finna á heimasíðu Óbyggðanefndar ásamt fleiri nytsamlegum upplýsingum. Frestur til að lýsa kröfum er til 15. maí 2024. Nánari leiðbeiningar um málsmeðferð eru á heimasíðu Óbyggðanefndar. Eigendum eyja í Dalabyggð er bent á að skrá ítarlega allar eyjar, hólma, sker, flögur o.s.frv. í sinni eigu og lýsa kröfum í þær.

Í Dalabyggð eru á annað þúsund eyjar, sker, hólmar, flögur o.s.frv. Undanskildar í kröfugerð eru 12 heimaeyjar, þ.e. í Gvendareyjum, Ólafsey, Rifgirðingum, Brokey, Öxney, Skáley, Purkey, Hrappsey, Arney, Rauðseyjum, Rúfeyjum og Akureyjum. En gerðar eru kröfur í allar aðrar eyjar, hólma og sker á þessum eyjabýlum. Eru þetta jarðir sem voru í byggð í meira en 20 ár frá gildistöku laga nr. 46/1905  um hefð.

Ekki er heldur gerð krafa í eyjar, hólma og sker sem eru innan stórstraumsfjöruborðs meginlands (þ.e. hægt að ganga í á stórstraumsfjöru). Til að hægt sé að útiloka þær frá frekari kröfugerð skal senda ábendingar þar um til Eddu Bjarkar Andradóttur lögmanns íslenska ríkisins (edda@juris.is) og afrit á Óbyggðanefnd (postur@obyggdanefnd.is).  Gott er að láta skjámynd úr kortasjá fylgja með til taka allan vafa af um hvaða eyjar, hólma og sker er um að ræða.

Á vef Héraðsskjalasafns Dalasýslu er að finna heimildaskrá fyrir eyjar í Dalabyggð, sambærileg þeirri sem gerð var vegna þjóðlendukrafna í Dalasýslu 2016. Heimildaskráning er enn í vinnslu, en uppfærð reglulega á vefnum eftir því sem bætist við. Ábendingar um fleiri heimildir og nöfn (og nafnleysi) á eyjum, skerjum, hólmum og flögum eru vel þegnar á netfang safnins, safnamal@dalir.is.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei