Bréfpokar undir lífrænan úrgang

Kristján IngiFréttir

Breyting hefur verið gerð á söfnun matarleifa við heimili, fyrirtæki og stofnanir og má nú ekki lengur nota maíspoka undir matarleifarnar. Eingöngu má nota bréfpoka. Þetta á við um allt sem fer í brúnu tunnuna eftir losun 27. febrúar (sunnan Búðardals) og 21. mars (í og vestan við Búðardal). Maíspokana er tilvalið að nota undir blandaðan úrgang og takmarka þannig enn frekar plast sem fer til urðunar.

Lífrænn úrgangur sem safnað er í Dalabyggð fer í GAJA, gas- og jarðgerðarstöðina á Álfsnesi. Bréfpokarnir brotna betur niður og festast síður í vélbúnaðinum sem þar er.

Dalabyggð hefur ákveðið að dreifa einu búnti af bréfpokum og körfu á öll heimili í sveitarfélaginu. Í búntinu eru 80 pokar sem duga í 6-9 mánuði og eiga að vera fáanlegir í verslunum í kjölfarið.

Ofangreindu verður dreift á heimili á næstu dögum ásamt bréfi með leiðbeiningum um poka og körfu og flokkunarleiðbeiningum fyrir lífrænan úrgang. Björgunarsveitin Ósk annast dreifingu í dreifbýli og nemendur unglingastigs Auðarskóla í Búðardal í fjáröflunarskyni. Ef enginn er heima verður þetta skilið eftir við útidyrahurðina í poka.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei