Tónleikar: Dúó Stemma

DalabyggðFréttir

Dúó Stemma verður með tónleika á Nýp á Skarðsströnd fimmtudaginn 4. júlí kl. 20:30. Efnisskráin er fjölbreytt. Hljóðfærin eru hefðbundin jafnt sem heimatilbúin; raddir, víóla, marimba, íslensk steinaspil ofl.

 

Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari mynda Dúó Stemmu.  Bæði eru þau eru hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en meðfram starfi sínu þar hafa þau sett saman margskonar tónlistarviðburði fyrir fólk á öllum aldri.

Dúó Stemma hefur haldið tónleika hérlendis og erlendis og frumflutt verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir Herdísi og Steef. Þau hafa sett saman sérstakar efnisskrár fyrir börn og spilað í leikskólum og í yngri bekkjum grunnskóla á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og í Hollandi. Einnig hafa þau flutt dagskrár sérstaklega fyrir ferðamenn.

Herdís Anna Jónsdóttir stundaði nám við Tónlistarskóla Akureyrar, Tónlistarskólann í Reykjavík og Hochschule fur Musik und Darstellende Kunst Stuttgart. Hún lék um árabil með Konzertensamble Salzburg, en starfar nú sem víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur jafnframt spilað með fjölmörgum kammerhópum á Íslandi svo sem Kammersveit Reykjavíkur og Dísunum.

Steef van Oosterhout lauk einleikaraprófi frá Sweelinck Conservatorium Amsterdam og starfaði í Hollandi með ýmsum kammerhljómsveitum m.a. Nederlands Blazersensemble og Consertgebouwhljómsveitinni í Amsterdam. Árið 1991 var Steef ráðin slagverks- og pákuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hefur jafnframt leikið með ýmsum kammerhópum svo sem Caput og slagverkshópnum Bendu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei