Umsögn Dalabyggðar vegna samfélagsvega

DalabyggðFréttir

Dalabyggð barst umsagnarbeðni frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vegna umsagnar við frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, eða samfélagsvegi (mál nr. 485, þingskjal 575).

Á 232. fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar var samþykkt umsögn vegna málsins þar sem sveitarfélagið fagnar framlagningu þess.

Í umsögninni kemur meðal annars fram að Dalabyggð telur að breytingin sé jákvæð umbylting í vegagerð. Breytingin væri nýtt verkfæri fyrir sveitarfélögin, ekki aðeins til að knýja á um breytingar heldur taka þátt í þeim og vera leiðandi í uppbyggingu þessa mikilvæga byggðarmáls sem vegaframkvæmdir eru. Þrátt fyrir að veglagning innan þessa verkefnis geri ráð fyrir veggjöldum telji sveitarstjórn Dalabyggðar það ásættanlegt í ljósi aðstæðna, til að brúa bil í tíma og flýta framkvæmdum, enda komi framlag ríkis af gildandi samgönguáætlun til framkvæmdarinnar sem og vegna þess að stjórnvöld hafa boðað endurskoðun á skattlagningu umferðar.

Dalabyggð vekur athygli á því í umsögn sinni að í ljósi þess að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa náð samkomulagi við ríkisvaldið um mikilvæga og í raun meiriháttar uppbyggingu á samgöngum þá er það réttlætismál að sambærilegum verkfærum verði beitt á landsbyggðinni. Af fréttum að dæma er um umtalsverða fjármuni að ræða sem verða til framkvæmda á meðan ekki er í sjónmáli sambærileg breyting fyrir íbúa dreifðra byggða sem búa við vegakerfi sem er að meirihluta slæmir malarvegir.

Sveitarfélagið tekur í umsögn sinni undir það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að framkvæmdin sem um ræðir geti aukið verulega aðdráttarafl byggðarinnar og að brýn nauðsyn sé til að leita nýrra leiða til að bæta vegi á Íslandi. Það er trú sveitarfélagsins að framlagt frumvarp um breytingu á lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir geti verið ein af þeim leiðum og geti haft veruleg áhrif á mannlíf og afkomu íbúa í Dalabyggð.

Umsögn Dalabyggðar í heild má lesa hér: Samfélagsvegir – umsögn Dalabyggðar

Það var í nóvember 2022 sem Haraldur Benediktsson þingmaður Norðvesturkjördæmis hélt opinn fund um samfélagsvegi í Árbliki í Dalabyggð og kynnti þar áform sín vegna málsins. Haraldur er fyrsti flutningsmaður málsins sem var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar eftir fyrstu umræðu þann 23. febrúar sl. Nefndin sendi út 20 umsagnarbeðnir en bent er á að öllum er frjálst að senda nefndinni skriflega umsögn um þingmál að eigin frumkvæði og hefur slík umsögn sömu stöðu og þær sem berast samkvæmt beiðni nefndar.
Hægt er að fylgjast með ferli málsins á vef Alþingis eða með því að smella hér: Ferli 485. máls

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei