Viðurkenningar á bæjarhátíð

DalabyggðFréttir

Skúli Hreinn Guðbjörnsson formaður byggðaráðs Dalabyggðar veitti viðurkenningar á bæjarhátíð vegna umhverfi og ljósmyndasamkeppni sem haldin var í tilefni bæjarhátíðar.

Umhverfisviðurkenningar

Umhverfisviðurkenningar eru veittar í þremur flokkum; snyrtilegasta bændabýlið, snyrtilegasta fyrirtækið og snyrtilegasti garðurinn í Búðardal.

Dómnefnd var skipuð Fjólu Mikaelsdóttur, Sigurði Bjarna Gilbertssyni og Svanhvíti Lilju Viðarsdóttur. Þau unnu verkefnið mjög samviskusamlega og heimsóttu nokkra staði sem helst komust til álita.

Viðurkenningu hlutu Sigurbjörn Sigurðarson og Melkorka Benediktsdóttir á Vígholtsstöðum fyrir snyrtilegasta bændabýlið. Þar horfði nefndin til þess að öllum byggingum er einkar vel við haldið, bæjarmyndin er mjög snyrtileg í heild og garðurinn glæsilegur og hefði vel komið til álita sem snyrtilegasti garðurinn líka.

Helga Elínborg Guðmundsdóttir og Þorgrímur Einar Guðbjartsson fyrir hönd Rjómabúsins á Erpsstöðum, fyrir snyrtilegasta fyrirtækið. Rjómabúið á Erpsstöðum hefur verið í mikilli endurnýjun á gestaaðstöðu bæði úti við og inni í gestastofunni og er aðkoman að fyrirtækinu og ásýndin öll mjög glæsileg.

Guðrún Ingvarsdóttir og Jón Benediktsson fyrir snyrtilegasta garðinn að Lækjarhvammi 2. Dómnefndin bankaði upp á hjá 4 garðeigendum sem stóðu upp úr nokkuð jafnir og vill lýsa yfir mikilli ánægju með hversu erfitt valið var, því það þýðir að mikill metnaður er lagður í garðrækt og fallega ásýnd. Garðurinn í Lækjarhvammi 2 er mjög ræktarlegur og fallegur, mikill metnaður í bæði skrautplöntum og nytjaræktun og falleg heild.

Tillaga kom fram um að þeir sem núna hljóta viðurkenningar taki að sér dómnefndarstörf næst, enda allt greinilega smekkfólk.

Ljósmyndasamkeppni

Veittar voru viðurkenningar fyrir þrjá flokka mynda; dýralíf í Dölum, mannlíf í Dölum og landslag í Dölum.

Í flokknum dýralíf í Dalabyggð er það kraftmikil mynd af hestum að hlaupa yfir veg sem Ágústa Rut Haraldsdóttir tók.

Í flokknum mannlíf í Dalabyggð er friðsæl mynd af dreng að eiga við fax á hesti, en Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld tók hana.

Í flokknum landslag í Dölum er það kyrrlát fjörumynd úr Búðardal eftir Jón Trausta Markússon sem fær viðurkenningu.

Einnig voru valdar 9 myndir til að setja upp og eru þær til sýnis utan dyra á girðingunni við leikskólann. Þær fá að vera þar það sem eftir lifir sumars, okkur til ánægju og yndisauka. Þær má skoða í myndasafni hér á vef Dalabyggðar.

Ágústa Rut Haraldsdóttir. Hestar að hlaupa yfir veg við afleggjarann að Sauðafelli og horft að Hundadal.

Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld. Drengur að leika við hest.

Jón Trausti Markússon. Fjaran og neðstu húsin í Búðardal.

Dagný Sara Viðarsdóttir. Skeljar og steinar í flæðarmálinu.

Helgi G Björnsson. Dráttarvél í Hörðudal.

Kristján Gíslason. Kletturinn Stekkjarborg og sést heim að Bugðustöðum.

Rannveig Finnsdóttir. Horft yfir Hvammsfjörð.

Steinar Þórarinsson. Traktor í hátíðarbúningi.

Jón Trausti Markússon. Hellnagil á Svínadal.

Á myndinni frá verðlaunaafhendingu má sjá Kristínu Jónu Ágústsdóttur, sem tók á móti viðurkenningu fyrir hönd Ágústu Rutar Haraldsdóttur, Rebeccu Catthrine Kaad Ostenfeld, Sigurbjörn Sigurðarson, Melkorku Benediktsdóttur, Guðrúnu Ingvarsdóttur, Jón Benediktsson, Jón Trausta Markússon, Skúla Guðbjörnsson formann byggðaráðs Dalabyggðar og á bak við hann glittir í Bjarnheiði Jóhannsdóttur ferðamálafulltrúa.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei